Fréttaflutningur af slysförum

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:38:35 (1776)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég efast ekki um og engin ástæða til að efast um að fyrir flm. vaki að létta byrðar þeirra sem verða fyrir því óláni að fréttir um hörmuleg atvik sem um er rætt í tillögunni berist þeim. Ég efast ekki um góðan tilgang og tel að allt eigi að gera sem í mannlegu valdi stendur til þess að létta þeim byrðarnar sem verða fyrir þeim atvikum sem getið er um í tillögunni, slysum eða harmraunum fólks eins og þar segir.
    Á hinn bóginn verð ég að láta í ljós efasemdir um að unnt sé að ná þessu göfuga markmiði með algildum reglum. Ég held það sé ákaflega vandmeðfarið að setja reglur í þjóðfélagi okkar eins og öðrum, sem takmarka fréttaflutning eða lúta að upplýsingaskyldu stofnana í slíkum tilvikum. Það hafa oft og tíðum verið til umræðu hugmyndir um upplýsingaskyldu stjórnvalda um önnur atvik en þau sem hér um ræðir og mjög erfitt að ná samstöðu um þær, hvað þá heldur þær sem rætt er um í tillögunni þar sem um er að ræða svið sem erfitt er fyrir löggjafann eða opinber stjórnvöld að fara inn á og lýtur að frelsi fjölmiðla og starfsemi þeirra í lýðræðisþjóðfélögum. Mér finnst því að hér sé hreyft ágætu máli en vil jafnframt láta þá skoðun í ljós að það kunni að vera ákaflega erfitt að móta sanngjarnar og skynsamlegar reglur sem geta náð til þessa sviðs, að í þessu efni verði menn að treysta frekar á heilbrigða dómgreind og tillit hjá þeim sem á fjölmiðlum starfa heldur en opinberar reglur eða fyrirmæli.
    Mér er kunnugt um það úr eigin starfi á dagblaði að menn velta slíkum málum yfirleitt ákaflega vel fyrir sér og leitast við að samræma annars vegar tillit til þeirra sem orðið hafa fyrir djúpstæðri sorg og hins vegar þá þjónustu sem þeir telja sig vera að sinna viðskiptavinum sínum, hvort sem það eru blaðalesendur, þeir sem horfa á sjónvarp eða þeir sem fylgjast með fréttum í útvarpi. Ég held að í þessum efnum verðum við að treysta á dómgreind þessara aðila frekar en opinberar reglur eða fyrirmæli og það kunni að reynast ákaflega erfitt að setja slíkar reglur. En ég mun leggja málinu lið og að þetta fái góða meðferð í allshn. þar sem málið verður væntanlega tekið til meðferðar. Ég vildi ekki láta hjá líða að láta þessar skoðanir mínar í ljós við fyrri umræðu um málið.