Fréttaflutningur af slysförum

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 14:42:12 (1777)

     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir við þennan málatilbúnað. Ég geri mér vel ljóst að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og það verður að skoða mjög gaumgæfilega. Ég vil taka undir með hv. þm. Birni Bjarnasyni að málið þarf góða skoðun og þar þarf að standa vel að verki. Ég tek einnig undir með hv. þm. Inga Birni Albertssyni að það kann að vera rétt að hafa tímamörk í tillögunni svo niðurstöður megi líta dagsins ljós áður en langt um líður.
    Það þarf ekki að bæta miklu við þær umræður sem hér hafa þegar farið fram. Ég vona að þær hafi orðið til þess að opna augu okkar fyrir því að nauðsynlegt er að málið verði skoðað mjög rækilega. Ég þekki svo mörg dæmi þess efnis að fjölmiðlar hafi gengið of langt og of fljótt að segja frá atburðum, segja jafnvel vitlaust frá atburðum vegna þess að það er verið að flýta sér svo mikið, sem síðan hefur valdið miklum skaða, aukið enn á sorgina og gert allar aðstæður langtum erfiðari en efni hefðu staðið til. Það má spyrja sig t.d. að því hvaða nauðsyn kalli fjölmiðil til þess að segja frá banaslysi í umferð, segja nákvæmlega frá öllum aðstæðum þremur klukkutímum eftir að atburðurinn gerðist þótt engin nöfn séu nefnd. Hvaða þörf er á slíkum hraða og hvaða fréttaþörf er verið að þjóna? Maður spyr sjálfan sig þessarar spurningar því að á meðan prestur og aðrir aðilar eru í þann mund að tilkynna nánustu aðstandendum hvað gerst hafi má jafnvel heyra nákvæmlega sagt frá því í útvarpinu hvernig allt hafi gerst.
    Einnig má segja frá fleiri aðstæðum er fólk hefur verið að upplýsa mig um, t.d. þegar bátur ferst. Nokkur dæmi eru um það, því miður, að nafn báts og númer er nefnt jafnvel tveimur eða þremur klukkutímum eftir að skipskaðinn eða slysið varð og engin leið að skýra öllum nánustu aðstandendum frá á svo stuttum tíma. En um leið og búið er að nefna nafn og númer báts sjá allir að það er búið að nefna nöfn allra skipverja um borð við nánustu aðstandendur.
    Þó niðurstaðan verði ekki sú að út úr starfinu komi samræmdar reglur væri betra en ekki að komið yrði á fót samræmdum samráðsvettvangi allra þeirra aðila sem koma að slíkum atburðum, fjölmiðla, björgunarsveita, presta, lögreglu og fleiri þar sem tækifæri gæfist til þess að efla trúnað og skilning og koma á fót samböndum sem yrðu til þess að reglur yrðu til sem síðan mundu gilda. Ég tek undir með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu að þetta gildir ekki síst um stofnanir sem koma að slíkum málum eins og um björgunarsveitir, lögreglu og dómskerfið, presta og aðra, hvaða upplýsingar þeir megi gefa og hvenær. Hér er ekki einvörðungu verið að tala um þá hlið málsins er snýr að frelsi fjölmiðla til að segja frá, prentfrelsinu og hinu helga frelsi í landinu, heldur er líka verið að fjalla um það sem ég vil nefna frelsi einstaklingsins, að fá að vera maður með reisn og halda sinni sjálfsvirðingu. Það virðist vera orðið svo hér á landi

að þegar minnst er á fjölmiðla þá eru það nánast heilagar stofnanir. Fjölmiðlar vinna sannarlega gott starf og það þarf að hlúa að því eins og frekast má með því að þeir njóti allra hinna bestu skilyrða. En fjölmiðill er ekkert annað en stofnun og frelsi hans má aldrei ganga svo langt að skerði rétt einstaklingsins til þess að njóta sjálfsvirðingar sinnar, reisnar og þess að vera maður. Það er kannski þess vegna sem ég vek athygli á þessari hlið málsins með till. til þál. Ég held að við séum einmitt að verja frelsið og ef okkur tekst að koma á góðri sátt um þetta mál í framtíðinni, þá yrði þjóðlífið betra og öðrum þjóðum til fyrirmyndar.