Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:17:56 (1783)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að leggja þessu máli lið. Ég vil leyfa mér að þakka hv. flm. fyrir elju hans í þessu máli. Við sem höfum átt sæti á Alþingi með hv. flm. málsins, Inga Birni Albertssyni, við þekkjum að það er orðin býsna löng barátta sem hér hefur farið fram. Og það verður að segjast eins og er að það er harla dapurlegt að standa nú enn í þessum sporum síðla árs 1992 með málið í þeirri fullkomnu óvissu a.m.k. hvað viðhorf hæstv. ríkisstjórnar snertir sem raun ber vitni.
    Maður hefði getað látið sér detta það í hug fyrir fjórum eða fimm árum síðan þegar þessi mál bar á góma, eða jafnvel er orðið enn lengra síðan, ég man ekki svo gjörla hvenær menn fóru fyrst að ræða innan sala Alþingis um nauðsyn þess að hefja undirbúning að endurnýjun björgunarþyrlu, að við værum frekar á þessum tímapunkti að ræða um kaup á annarri vél og menn væru að undirbúa sig fyrir að reka hér frekar tvær en eina fullkomna björgunarþyrlu til þess að fullnægjandi öryggi væri fyrir hendi á þessu sviði.
    Þetta er að verða einhver allra dapurlegasti dráttur á þörfu máli sem maður hefur upplifað í einu tilviki og satt best að segja með ólíkindum hvað menn gerast litlir karlar og gefa lítið fyrir orð sín, heitstrengingar og fyrirheit þegar á hólminn er komið og það í máli af þessu tagi. Það er eins og táknrænt fyrir þessa sögu alla saman að enginn einasti hæstv. ráðherra skuli vera viðstaddur þegar þessi umræða fer fram. Við skiljum það auðvitað vel hvers vegna sumir þeirra kjósa að vera fjarri. Þeim þykir það sjálfsagt ekkert til álitsauka að upp sé rifjuð frammistaða þeirra í málinu.
    Ég vil engu að síður leyfa mér að spyrja hæstv. forseta hvort það sé svo að enginn hæstv. ráðherra úr ríkisstjórn sé í húsinu. ( Forseti: Í fljótu bragði sér forseti að a.m.k. einn ráðherra er í húsinu. Tveir

eru með fjarvistarleyfi í dag. Um fjarveru annarra veit forseti ekki en telur að ef þeir eru ekki viðstaddir hafi þeir gildar ástæður fyrir því.) Já, ef að líkum lætur. Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Ég teldi ómaksins vert að gera þeim eina hæstv. ráðherra sem er í húsinu viðvart um að þessi umræða fari fram skyldi hann ekki vera þess meðvitaður en ætla svo ekki að ergja mig að öðru leyti yfir nærveru þeirra eða fjarveru. ( Forseti: Forseti biður velvirðingar. Forseti sér að það eru tveir hæstv. ráðherrar í húsinu og vill jafnframt benda á að hátalarar eru í þingflokksherbergjum a.m.k. þar sem bæði þingmenn og ráðherrar geta fylgst með umræðum.) Það fer kannski best á því, hæstv. forseti, að ráðherrarnir fái að hlusta á þetta í gegnum hátalara. Það sést þá a.m.k. ekki í salnum ef þeir skyldu roðna eitthvað.
    Ég vil, hæstv. forseti, að öðru leyti bara undirstrika nauðsyn þess að á þessu máli verði nú tekið. Ég er orðinn þeirrar skoðunar og lái mér hver sem vill að það geti enginn annar aðili útkljáð þetta mál en Alþingi sjálft. Og ég held að það gangi ekki heldur að ætla hæstv. ríkisstjórn framkvæmdina því eins og hér hefur komið fram bæði í máli síðasta hv. ræðumanns og málshefjanda dugar ekki einu sinni samþykkt Alþingis og ótvíræð stefnumörkun um að ráðist skuli í þessi kaup. Ríkisstjórnin hefur það ósköp einfaldlega að engu. Skýrara dæmi um vanvirðingu á vilja Alþingis hef ég ekki séð í langan tíma hvað meðferð framkvæmdarvaldsins á slíkum hlutum snertir, samanber þáltill. um kaup á björgunarþyrlu sem var samþykkt á Alþingi 12. mars 1991.
    Eins og fram hefur komið er hér fyrst og fremst um að ræða að tekin verði ákvörðun um að ráðast í þessa endurnýjun. Útgjaldaskuldbindingar ríkisins þurfa væntanlega ekki að koma til á allra næstu árum. Og þó svo væri yrðu þær a.m.k. ekki nema einhver lítill hluti kostnaðarins fyrr en að tveimur eða þremur árum liðnum eða jafnvel lengri tíma ef miðað er við þær upplýsingar sem fram hafa komið í gögnum starfshópa sem að þessu hafa unnið. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé enginn annar kostur en að samþykkja lög af þessu tagi á þinginu. Ef eitthvað væri væri ástæða til að setja inn í þau lög skýrari fyrirmæli en eru í frv. um það hvernig framkvæmd málsins skuli háttað í einstökum atriðum þannig að það sé alveg augljóst að ríkisstjórnin eigi ekkert undanfæri í þeim efnum. Stefnumörkun og viljayfirlýsing Alþingis er ekki fullnægjandi samanber reynsluna af þáltill. frá 1991.
    Það eina sem ég sæi þá ástæðu til að skoða t.d. í meðförum þingnefndar á frv. væri hvort, óvenjulegt sem það nú væri, Alþingi vildi í þessu sérstaka tilviki með tilteknum hætti í raun taka framkvæmdarvaldið í sínar hendur í ljósi þess að framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin hæstv., hefur algerlega brugðist. Og það væri með einhverjum hætti mælt fyrir um hvernig staðið yrði að framkvæmd málsins. Auðvitað getur Alþingi gert það með ýmsum hætti. T.d. væri hægt að ákveða að kjósa nefnd á þinginu sem fengi fengi vald til að semja um kaupin og hefði á bak við sig fjárveitingar sem Alþingi legði til þannig að ekki þyrfti að banka upp á í dómsmrn. eða annars staðar í stjórnkerfinu úr því að vilja- og getuleysi hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar er svo algert sem raun ber vitni.
    Fyrir þessu eru fordæmi frá fyrri tíð a.m.k. að þegar mikið liggi við taki Alþingi málin sjálft í sínar hendur með einhverjum slíkum hætti. Ég vil a.m.k., hæstv. forseti, leyfa mér að hreyfa þessari hugmynd hér í ljósi reynslunnar. Það er algerlega óþolandi að mál af þessu tagi hrekjist fyrir fótum manna árum saman. Það er nógu slæmt í hvaða tilviki sem er en þegar viðkvæm mál af þessu tagi eiga í hlut er það enn ósæmilegra en ella.
    Ég hef ekki tölu á því, hæstv. forseti, hversu margar nefndir hafa starfað á undanförnum árum að þessu máli. Hver nefndin á fætur annarri hefur á undanförnum árum verið sett á laggirnar að því er best verður séð eftir á að hyggja eingöngu til þess að tefja málið. Allar tæknilegar upplýsingar sem þörf er á hafa legið fyrir um árabil og sérfræðingar Landhelgisgæslunnar og aðrir sem þetta hafa skoðað hafa oftar en einu sinni á undanförnum árum orðið alveg sammála um hvað væri skynsamlegasta leiðin í þessum efnum. Samt sem áður þykir endalaust ástæða til að skipa nýja nefnd og setja málið í nýjar og nýjar skógarferðir.
    Það síðasta sem afrekað var, ef ég man rétt, í þessum efnum var að hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, var settur yfir sérstakri nefnd sem átti að ræða við ameríska herinn um hvort ekki væri með einhverjum hætti hægt að vera í púkki við hann um þessi mál. Niðurstaðan úr því varð samt sem áður sú að þeirra þarfir færu ekki saman við okkar þarfir fyrir björgunarþyrlu og menn yrði að stefna á það að kaupa sjálfir vél og reka hana til sinna þarfa. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að ræðumaður er því sammála og fylgjandi. Ég hef frá upphafi vega verið sannfærður um það að sama hvar á málið sé litið sé það nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að við treystum á okkur sjálfa, Íslendinga, í þessum efnum.
    Ég ætla ekki, vegna þess að þetta mál er svo margrætt og margrökstutt eins og hér hefur komið fram, að ræða tæknilegar hliðar þessa máls. Það hef ég áður gert í umræðum um þetta fyrr á tíðum. Þá var bjartsýni manna slík að menn leyfðu sér að ræða spurningar af því tagi hversu stór þyrlan þyrfti að vera. Hvort hún ætti að taka jafnvel stærri áhafnir sem hér eru á skipum við landið. Hvort ef til vill væri hyggilegra að stefna á kaup á tveimur e.t.v. lítið notuðum vélum og reka tvær öflugar björgunarþyrlur. Hvort möguleikar væru fyrir hendi að staðsetja aðra þeirra norðan eða austan lands og hina fyrir sunnan og auka þannig enn á öryggið.
    Ég nefni þetta aðallega til að minna á hvað menn eru að hugsa um og hvað rætt er t.d. í flotanum og meðal björgunarsveita í þessum efnum á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn landsins er að heykjast á því og svíkja marggefin loforð um að kaupa eina vél. Eru menn þó að ræða um á seinni tíma málsins jafnvel að láta sér duga að kaupa notaða vél fyrir minna fé en ný mundi kosta. En það eru og hafa allan tímann að mínu mati verið framkvæmdaratriði sem eiga ekki að blandast um of inn í stefnumörkunina sjálfa og ákvörðun um hvort þessi tækjakostur okkar verði endurnýjaður eða ekki.
    Ég held að með öllu sé óþarft að vitna til þess sem þó er staðreynd að notkun þess tækis sem í gangi er hefur vaxið mjög allra síðustu árin. Til að mynda fékk ég upplýsingar um það síðsumars að sennilega stefnir í að útköll verði fleiri á vélinni en nokkru sinni fyrr á þessu ári a.m.k. miðað við virkan starfstíma hennar þann tíma sem hún er í notkun og er ekki frá vegna viðhalds og endurnýjunar. Einnig er rétt að minna á að það styttist mjög í meiri háttar viðhald á þessu tæki sem mun valda því ef engin úrræði verða viðhöfð að eina björgunarþyrla landsmanna verður frá langtímum saman á næsta ári eða hinu þarnæsta vegna meiri háttar skoðunar og sem komið er að.
    Hæstv. forseti. Ég bind sem sagt vonir við að Alþingi sjálft taki þetta mál í sínar hendur, afgreiði það og það sem fyrst og gangi þannig frá hnútunum að þeir rakni ekki upp. Ef menn sjá ástæðu til myndi ég a.m.k. vera tilbúinn til að stuðla að því að Alþingi tæki sjálft framkvæmd málsins í sínar hendur með einhverjum þeim hætti að aðrir gætu ekki stöðvað það eða þvælst fyrir því lengur. Nóg er komið.