Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:48:47 (1791)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef oft talað fyrir daufum eyrum að þeirri reglu verði breytt að lesið upp hvaða ráðherrar séu fjarverandi eða óski eftir fjarvistarleyfi heldur sé þess ávallt getið í upphafi þingfundar ef gera megi ráð fyrir því að ráðherrar verði við. Það einfaldar málið og er líka miklu skýrara fyrir þjóðina að fá af því sannar fréttir hverju sinni hvaða ráðherrar eru í þingsalnum. Nú er ekki við forseta að sakast í þessum efnum því það hefur ekki fengið hljómgrunn að þessi breyting verði upp tekin og því hef ég ekki talið rétt að ræða þetta undir þingsköpum þar sem hin viðtekna regla er eins og allir vita að það er beðið um fjarvistarleyfi fyrir þá sem eru eða hyggjast vera fjarverandi.
    Hins vegar tel ég rétt að leiðrétta það úr þessum ræðustól sem fram hefur komið hjá hv. 5. þm. Suðurl. að það veki undrun að ráðherrar séu ekki viðstaddir. Þetta gætu einhverjir skilið á þann veg sem læsu þingtíðindin að það væri reglan að þeir væru viðstaddir. En hér er ekki neitt undarlegt á ferðinni. Hér er allt samkvæmt hefðbundinni reglu eins og þeir vita sem eru í þingsalnum annað slagið.
    Nokkuð hefur verið deilt um hverjum það sé að kenna að kosningaloforð Sjálfstfl. hafa ekki verið efnd. Sjálfur hefur hæstv. forsrh. vakið á því athygli í umræðuþætti í sjónvarpinu að þetta er samsteypuríkisstjórn. Og þegar hann kemur málum ekki fram stafar það af því að samstarfsflokkurinn hefur aðrar skoðanir. Það eru í sjálfu sér engin rök í þessu máli þó að einn flm. telji að þetta sé allt fyrrv. ríkisstjórn að kenna. Það eru engin rök í þessu máli einfaldlega vegna þess að hér hefur verið vitnað til yfirlýsingar sem gefin var út af Sjálfstfl. og staðfestir að þetta var eitt af því sem Sjálfstfl. taldi rétt að hampa í kosningabaráttunni.
    Það er alveg rétt að fyrrv. ríkisstjórn kom ekki öllum málum fram. En það leiðir hugann að því að á þessari þáltill. er enginn einasti alþýðuflokksmaður, ekki einn einasti. Hvar eru þeir á þessu lagafrv.? Þeir eru bara ekki með. Það er sagt að það sé lítið af þeim í salnum, mjög lítið þó að það sé nú hér um bil í samræmi við stærð flokksins en það er sama, þetta er sennilega minna hlutfall en þar er til staðar. ( Gripið fram í: Mjög eðlilegt hlutfall.) En svona frv. á ekki að þurfa að flytja. Þingtæknilega er það nefnilega hringavitleysa. Ef menn ætla að framkvæma eitthvað, þá flytja menn tillögu um það í formi þál. eins og gert hefur verið og þingið er búið að samþykkja. Næsta stig er að við fjárlagaafgreiðslu eru settir inn fjármunir til að framkvæma það og við afgreiðslu lánsfjárlaga eru settar inn heimildir til þess að taka lán til að framkvæma. Þarna eru menn nefilega komnir í merkilega stöðu. Ég held að ég verði eiginlega að víkja til hestamennskunnar svo að menn skilji hvað staðan er sérstæð. Þetta er eins og að vera komin á hestbak í besta skrúða og það er ekkert að nema það að klárinn neitar gersamlega að hreyfa sig úr stað. Hann er staður. En það er ekkert sem heitir, á þessu hrossi skal riðið til kirkjunnar að sjálfsögðu og neitað að skipta um. Menn heimta keyri, menn heimta spora. Úr sporunum skal skepnan en hún þrjóskast við og hreyfir sig ekki. ( Gripið fram í: . . .  á hjólaskautum?) Ég hef nú aldrei séð riðið á hjólaskautum en það verða þeir að taka upp sem treysta sér til. Ég segi eins og er að ég er orðinn of gamall til að standa í slíkum nýjungum jafnvel þó að þeir sem eru kjarkmenn taki upp á því.
    Það má merkilegt kallast að menn telji nú þrátt fyrir allt að ríkisstjórnin muni ekki brjóta lög og

1. flm., hv. 5. þm. Reykv., lýsir þeirri trú sinni hér úr ræðustól að þessi ríkisstjórn muni ekki brjóta lög. Ég verð að segja eins og er að það er sú einlægasta trúarjátning sem ég hef heyrt á þessum vetri úr ræðustólnum. Maður kemst nánast við. Ég hefði bara ekki verið fær um að fara í ræðustólinn strax á eftir þessari yfirlýsingu. Og það verður líka að segjast eins og er um ótta hans um það að allshn. ynni kannski ekki nógu hratt og vel í málinu að ég vil fyrst og fremst undirstrika það að sá ótti er ástæðulaus.
    Mér fannst í fyrravetur að það væru öll efni til þess að hæstv. dómsmrh. mundi gera gangskör að því að framkvæma þetta, áttaði mig ekki á því að þetta væri innanbúðarvandamál hjá ríkisstjórninni, var ekki búinn að gera mér grein fyrir því að Alþfl. væri á móti því að keypt yrði þyrla, var ekki búinn að gera mér grein fyrir því að forusta Alþfl. væri alfarið á móti því að þyrla væri keypt og var ekki búinn að gera mér grein fyrir því að sennilega hefðu þeir einnig stuðning hv. 6. þm. Reykn. til þess að stöðva þetta mál þó að ég verði nú að segja eins og er að mér þykir dálítið skrýtið ef það er rétt. En kannski er hann undir í sínum flokki í málinu.
    Ég minnist þess að ég sat í nefnd undir forustu ágæts sjálfstæðismanns sem nú er farinn af Alþingi, Péturs Sigurðssonar, þar sem við unnum að öryggismálum sjómanna. Og mér er sem ég sæi þá kempu una því að búið væri að samþykkja þáltill. í svona máli og svo dytti mönnum í hug að gera ekki neitt. Ég vildi gjarnan vita hvernig ástand hefði verið í þingflokki Sjálfstfl. ef mönnum hefði dottið það í hug á þeim tíma sem hann sat þar á þingi. Það er náttúrlega svo dæmalaus ósvífni að það nær ekki nokkurri átt. Það þarf ekki að flytja hér mál um það að jafnvel þó þetta væri bara fyrir sjómenn eina sem komið hefur fram að er ekki, þá þurfi nánast að biðjast afsökunar á því að leggja þetta til. Það er náttúrlega gersamlega út í hött. Hins vegar þegar maður heyrir útlistanir hv. 1. flm. á því hvar eigi að taka peningana þá fer maður að skilja hvers vegna hæstv. utanrrh. telur þetta ekki skynsamlega tillögu. Og þá fer maður að skilja hvers vegna Alþfl. er á móti því. Það verður náttúrlega að fara með gát í að ganga í vasa annarra í þessum efnum. Það er liggur alveg ljóst fyrir. Ég held að ég mundi nú hika við að bera ábyrgð á því að borga fyrir þá allan útlagðan kostnað, ráðherra vors lands. Ég mundi nú hika við að skrifa undir það, en vissulega er það rétt að peningar eru til í íslensku samfélagi til þess að fara í þessa framvæmd. Ég stóð fyrst og fremst upp til þess að eyða öllum vafa um það og 1. flm. og þarf ekki að óttast að þetta frv. verði ekki afgreitt út úr allshn. það tímanlega að það komi til atkvæða hér í þinginu.