Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 15:59:20 (1792)

     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við það frv. sem hér er til umræðu. Þessar umræður rifja upp fyrir mér aðdragandann að því þegar núverandi þyrla var keypt vegna þess að að sumu leyti stendur nú svipað á, þ.e. brýnt er að kaupa nýja þyrlu. Það var árið 1983 sem Landhelgisgæslan missti þyrlu sína á sviplegan hátt og því var talið nauðsynlegt að bregðast skjótt við og ráða þar bót á. Eftir skamma athugun varð niðurstaðan sú að kaupa það tæki sem þá var talið best í þessu skyni. Ég gegndi þá starfi dómsmrh. og þurfti að sjálfsögðu að fá stuðning þáv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar og ríkisstjórnarinnar allrar, ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Þegar sú ákvörðun hafði verið tekin, að fara þá leið að velja besta kostinn sem þá var talinn var það borið undir fjmrh. og ríkisstjórn og fékk þar eindreginn stuðning. Og þegar ríkisstjórnin hafði afgreitt málið þannig, þá beitti þáv. fjmrh. sér af sínum alkunna dugnaði fyrir því að leysa málið á þann besta og hagkvæmasta hátt sem unnt var, bæði með sem bestum kjörum fyrir ríkissjóð en jafnframt að þyrlan kæmi sem fyrst. Enginn efast um að sú ákvörðun sem þarna var tekin var rétt. Svo vel hefur flugmönnum Landhelgisgæslunnar borið gæfa til að nýta þetta tæki sem þeir fengu í hendur og bjarga mörgum sem hafa verið í nauðum staddir. En tækninni fleygir ört fram og að sjálfsögðu þarfnast tæki endurnýjunar sem svo mikið er notað. Og því hefur því miður í nokkur ár farið fram umræða um það hvernig standa skuli að endurnýjun. Sú saga hefur verið rakin m.a. í þessari umræðu og ég ætla ekki að endurtaka það.
    Það hefur aðeins verið vikið að því af hverju hafi svona til tekist að nú skuli þurfa margra ára þras og umræður án þess að nokkur árangur verði þegar við höfum dæmi um það áður að það tók aðeins nokkra mánuði. Ég ætla ekki að leggja dóm á þær tilgátur sem hér hafa komið fram. Hins vegar vitum við það öll sem hér erum inni og reyndar þjóðin öll að núverandi hæstv. dómsmrh. er einnig sjútvrh. og þegar núv. hæstv. sjútvrh. hefur komið fram með einhverjar tillögur sem snerta sjávarútveg, þá hefur hæstv. forsrh. verið fljótur að láta í sér heyra og sagt: Þetta er tóm vitleysa, tómur óþarfi, og þannig tekið ráðin af hæstv. sjútvrh. Ég veit ekki hvort það er ástæðan í þessu máli. Um það eru sjálfsagt aðrir fróðari. En hver svo sem ástæðan er fyrir því að ekki hefur orðið úr framkvæmdum í þessu mikilvæga máli, þessu lífshagsmunamáli allt of margra í þjóðfélaginu sem því miður munu lenda í slysum, annaðhvort á sjó eða landi í framtíðinni, þá má ekki verða langur dráttur enn á því að niðurstaða fáist og aðgerðir sjái dagsins ljós þannig að þessi bráðnauðsynlega endurnýjun eigi sér stað og nýtt tæki komi hingað sem fyrst í hendur þeirra manna sem hafa sýnt að þeir kunna svo vel með það að fara og hafa bjargað svo mörgum á undanförnum árum.