Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:05:16 (1793)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ræddi það við upphaf þessa máls að stólar ráðherranna væru auðir. Nú hefur þessi umræða staðið hátt á annan klukkutíma og enn eru þessir stólar auðir. Það er virðingarleysi við Alþingi að þetta skuli gerast undir þessari umræðu miðað við þau fyrirheit sem hæstv. ráðherrar hafa gefið þjóðinni í þessu máli. Ég og fleiri þingmenn fórum fram á það við aðalforseta þingsins að ráðherrum væri gert viðvart. Ég fór gáleysislegum orðum um ráðherra sem gekk hér í gegnum salinn meðan á umræðunni stóð. Ég var áminntur af forseta þingsins fyrir þau ummæli en mér sýnist að þetta hafi aðeins verið svipmynd af hæstv. ráðherra því að hann hefur ekki borist inn í þennan sal á nýjan leik undir þessari umræðu. Það var hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hér gekk í gegnum salinn undir umræðunni. Ég harma það að forsetar þingsins skuli sýna þingmönnum það litla virðingu, ég tala nú ekki um þegar hv. þm. og fyrrv. forsrh. hefur farið fram á það að þessari umræðu ljúki ekki svo að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, alla vega einhverjir, komi og greini frá stöðu málsins því að mér er ekkert gaman í hug undir þessari umræðu. Ég get tekið undir það með hv. 5. þm. Norðurl. e.
    Hér er mikið alvörumál á ferðinni. Hér eru miklar brigður á ferðinni á loforðum og fyrirheitum sem ráðherrar hafa gefið í þessu máli. Það er ekki að ástæðulausu að nokkrir af hv. þm. stjórnarliðsins sjá sig knúna til þess að leggja fram frv. með þessum hætti og það kom hér fram í ræðu frsm. að alvarlegar brigður hefðu orðið. Það ætti ekki að standa við þau fyrirheit sem hér voru gefin. Ég get ekki annað, hæstv. forseti, undir þessari umræðu en litið tæpt ár til baka og rifjað upp ummæli nokkurra ráðherra. Þá fór hér fram umræða utan dagskrár um þyrlukaup. Sú umræða fór að vísu fram í framhaldi af hörmulegu slysi þar sem margir sjómenn höfðu látið lífið, fyrst og fremst vegna þess að þyrlu skorti. Ég vil láta það koma fram, ekki síst vegna þess að fram hefur komið í umræðu hjá einstökum stjórnarliðum að það væri við fyrri ríkisstjórn að sakast, að hæstv. dómsmrh. og sjútvrh. Þorsteinn Pálsson sagði 25. nóv. 1991 undir þessari umræðu, með leyfi forseta:
    ,,Eins og hér hefur komið fram í máli hv. málshefjanda tók Alþingi um það ákvörðun á sl. vori að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að kaupum á fullkomnari björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Á þann veg hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls að í fyrsta lagi var í tíð fyrri ríkisstjórnar ákveðin í lánsfjárlögum heimild til þess að semja um slík kaup og taka 100 millj. kr. að láni í því skyni.``
    Ég vil síðar vitna í seinni ræðu sem hæstv. dóms.- og sjútvrh. ræddi undir þessari umræðu. Hér hafa menn efast um afstöðu Alþfl. Í þeirri sömu umræðu talaði hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson og sagði m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ég vil vekja athygli á því að í áliti þeirrar nefndar, sem var eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstjórnar að skipa, er einmitt ítrekað að brýnt sé að Landhelgisgæslan fái öfluga þyrlu til afnota fyrir sína björgunarstarfsemi, öflugri en þá sem hún hefur nú.`` Síðar sagði Jón Sigurðsson viðskrh.: ,,Þetta vildi ég, frú forseti, nefna við þessa umræðu vegna þess að hún kallar á mikla alvöru í meðferð málsins.``
    Hver er alvaran undir þessari umræðu hér í dag? Alvaran er sú að það er fullyrt af stjórnarþingmönnum að ríkisstjórnin hafi horfið frá fyrirheitunum í málinu.
    Síðan segir Jón Sigurðsson viðskrh.: ,,Ég vona að við finnum sameiginlega í þinginu bestu lausnina.`` Og að lokum segir hann: ,,Ég vil vekja athygli á því að við höfum þær heimildir sem þarf, bæði í lánsfjárlögunum og í fjárlögunum. Við eigum að nýta þær sem allra best. Það verður sem betur fer alls ekki til þess að tefja framgang málsins, en það er líka mikilvægt að þessar ákvarðanir séu vel grundaðar og þar tel ég að skýrsla þyrlunefndarinnar, sem undir forustu Björns Bjarnasonar var skilað í október, sé mjög góð undirstaða.``
    Þetta voru orð þessa hæstv. ráðherra við umræðu fyrir tæpu ári síðan. Í lokaræðu sinni sagði hæstv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson, sem af eðlilegum ástæðum er fjarri þessa umræðu og ég sakna þess, það er skiljanlegt en ég býst við að þótt hann sé fjarri gegni einhver ráðherra í ríkisstjórninni hans embætti um þessar mundir þó að mér sé ekki kunnugt um hver það er. Með leyfi forseta, sagði dómsmrh. í lok ræðu sinnar: ,, . . .  í því fólst ekki á nokkurn hátt gagnrýni á vinnubrögð fyrri ríkisstjórnar í þessu efni. Ég tel þvert á móti að hún hafi unnið af fullum heilindum í þessu máli. Og ég andmæli því að annað hafi átt sér stað við vinnu núv. ríkisstjórnar. Í framhaldi af þessari undirbúningsvinnu fyrri ríkisstjórnar var skipuð sérstök nefnd með sömu aðilum og áður. Þeirri nefnd var falið að halda áfram undirbúningi að ákvörðun Alþingis og ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram að um þetta mál var breið samstaða í þinginu. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að breyta þeirri ákvörðun og vænti ég þess að áfram verði um málið góð samstaða. Um það á ekki að þurfa að vera pólitískur ágreiningur. Og það hefur verið og verður áfram unnið að framgangi málsins í samræmi við ákvarðanir Alþingis. Ég er sammála því að þær heimildir eru fyrir hendi í lánsfjárlögum sem á þarf að halda og ég er alveg sannfærður um að víðtæk samstaða verður um að í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1992 verður sú heimild endurnýjuð þannig að unnt verður að taka ákvörðun þegar niðurstaða er fengin. Ég tel mjög eðlilegt í framhaldi af áliti þyrlunefndar, sem segir mjög ákveðið að vinna verði hratt að því að bæta þyrlukost Landhelgisgæslunnar, að lokið verði þeim viðræðum við bandarísk stjórnvöld sem nefndin leggur til.``
    Að lokum segir hæstv. dómsmrh.: ,,Mér virðist einsýnt að um þetta eigi að geta orðið góð samstaða hér eftir sem hingað til í þinginu. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að hverfa frá fyrri samþykktum Alþingis og ég er vissulega fús til þess að hafa samráð við fulltrúa þingflokkanna til að tryggja áframhaldandi einingu um framgang þessa máls og vandaðan undirbúning.``
    Svo mörg voru þau orð. Hér liggur skýrt fyrir að fyrir tæpu ári síðan virtist ríkisstjórnin og þingið standa einhuga. Nú hefur komið í ljós við þessa umræðu að hér hefur orðið vinaskilnaður. Ríkisstjórnin hefur svikið málið. Það hlýtur að vera ljóst að til að koma þessu brýna hagsmunamáli Íslendinga í höfn verður Alþingi að taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni. Við verðum að koma frv. í höfn svo þyrlumálið verði leyst sjómannanna vegna, fjölskyldnanna vegna og ég vil segja enn og aftur allra Íslendinga vegna. Við búum við þannig aðstæður að það er óþolandi að Alþingi, sem hefur góðan vilja í þessu máli, skuli ekki klára það. Hins vegar fer ég fram á og ítreka að ég tel að þessari umræðu, hæstv. forseti, sé ekki hægt að ljúka öðruvísi en rödd ríkisstjórnarinnar heyrist hér. Ráðherrarnir hafa ekki enn gengið í salinn eftir tveggja tíma umræðu um þyrlumálið. Hverju sætir fjarvera þeirra í dag?
    Hvers vegna sýna forsetar Alþingis þinginu svo litla virðingu að verða ekki við beiðni í upphafi umræðunnar um að ráðherrar verði kallaðir fyrir? Það var ekki um einn ráðherra að ræða. Við nefndum að hér þyrfti að vera við umræðuna einhver þeirra sem færi með dómsmálin í dag, forsrh. eða fjmrh. Það var hægt að velja úr stórum hópi manna. En enginn ráðherra hefur sýnt þessari umræðu þá virðingu að vera viðstaddir hana. Þeir skulda íslenskum sjómönnum skýringu á því háttalagi.