Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:18:26 (1794)

     Forseti (Pálmi Jónsson) :
    Forseti vill taka fram að hann vonast til að það hafi verið mismæli hjá hv. þm. sem var að ljúka máli sínu að forseti sýni hv. þm. virðingarleysi. Hv. þm. ýjaði að þessu í tvígang og ég vil segja að ég tel þetta ofsagt og ég tel að forseti, hvort sem ég eða aðrir sitja á forsetastóli, kappkosti að sýna hv. alþm. virðingu. Ég bendi einnig á að ég veit ekki annað en hv. alþm. kappkosti hið sama.
    Varðandi þau orð að ekki sé hægt að ljúka þessari umræðu án þess að kallaðir séu fyrir ráðherrar hefur sá forseti sem hér stendur að þessu sinni verið við hálfa umræðuna. Forseti sá sem var fyrr við umræðuna hafði svarað þessu. En það er venja ef flm. máls óska eftir að því sé frestað eða umræðu ljúki ekki að orðið er við því. Ég bendi á að hér er einvörðungu um 1. umr. um lagafrv. að ræða. Verði það að lögum eru tvær umræður eftir. Það eru því ærin tækifæri til þess í fyrsta lagi að láta það koma í ljós hvernig Alþingi tekur á málinu og síðar að krefja svara hjá hæstv. ráðherrum.