Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:31:00 (1799)

     Forseti (Pálmi Jónsson) :
    Forseti vill taka fram að hann veit ekki betur en hæstv. ráðherrar hafi verið við upphaf fundarins í dag eins og oftast er, þeir sem ekki hafa fjarvistarleyfi. Hins vegar þarf ekki að minna hv. þm. á að það gerist iðulega í önnum ráðherra að þeir ganga til annarra verka þegar líður á umræðu ef ekki er um mál að ræða sem þeir bera ábyrgð á og eru ekki flutningsmenn að. Nú hefur verið sagt af tveimur hv. alþm. að þeir telji að þessari umræðu geti ekki lokið án þess að einhver hæstv. ráðherra sé viðstaddur. Forseti er út af fyrir sig tilbúinn að fresta þessari umræðu ef um það kemur fram bein ósk.
    Meðan ég hef setið í forsetastól hefur ekki komið fram bein ósk um það heldur þær ályktanir einstakra hv. alþm. að umræðunni geti ekki lokið án þess að hæstv. ráðherrar séu viðstaddir og enn eru þingmenn á mælendaskrá. Sé þess óskað er sjálfsagt að verða við því að umræðunni sé frestað.