Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:33:09 (1800)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að lesa upp þann texta þingskapanna sem við á í þessu tilfelli. Þetta er 53. gr., með leyfi forseta:
    ,,Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.``
    Hér eru engar undantekningar gerðar á þeirri forsendu að um þingmannamál sé að ræða. Engar. Þannig að forseta bar og ber skylda til að meta þá nauðsyn hvort hægt sé að líta svo á að leyfa ráðherrum fjarvistirnar. Það eru engar heimildir til handa forseta að líta svo á að hinir sem ekki leita eftir fjarvistunum hafi heimildir til fjarvista. Það eru engar heimildir fyrir forseta að líta svo á. Þetta vil ég komi fram. Þess vegna gengur það ekki ef menn ætla að stjórna þessu þingi þannig að vinnufriður sé að forsetar ætli að fara að útdeila sínu valdi á þann hátt að hægt sé að veita ráðherrunum heimildir til að vera fjarverandi --- guð má vita hvað þeir eru að gera, ég hef ekki trú á því að það sé þarfara en það sem hér fer fram.