Greiðslufrestur á fasteignalánum vegna fjárhagserfiðleika

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:51:12 (1807)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í örfáum orðum lýsa stuðningi mínum við það frv. sem hér er lagt fram. Það er einu sinni svo að það er ekki bara í atvinnulífinu sem við stöndum frammi fyrir því núna að þurfa að skuldbreyta. Það er ekki síður í fjármálum einstaklinga sem verða illa fyrir barðinu á stórauknu atvinnuleysi. Þetta er nýtt í sögu okkar Íslendinga núna á seinni áratugum. Nánast allir þeir sem hafa ráðist í meiri háttar fjárfestingar í húsnæðismálum hafa getað gengið að því vísu að þeir hefðu trygga vinnu og getað aflað tekna til þess að standa undir sínum fjárskuldbindingum.
    Það atvinnuleysi sem hér hefur verið á umliðnum árum hefur fyrst og fremst verið bundið ákveðnum félagslegum aðstæðum auk þess að vera tímabundið atvinnuleysi, sérstaklega þar sem menn hafa stundað sjómennsku og fiskvinnslu. Það hafa menn oft og tíðum og oftast nær getað unnið upp með meiri tekjum þess á milli. Þetta er því að mínu mati mjög brýnt og snertir þá einstaklinga sem að málinu koma mest, en ég vil benda á annan þátt í málinu. Þetta snertir einnig hið íslenska fjármálakerfi. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt fyrir fjármálakerfi að allir þeir sem vilja og telja sig til lengri tíma litið geta staðið við sínar fjárskuldbindingar séu aðstoðaðir við það og aðstoðaðir við að komast yfir tímabundna erfiðleika.