Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 17:06:40 (1809)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir efni þessarar till. Eins og þingmenn eflaust minnast var samþykkt á síðasta þingi lagafrv. um aukatekjur ríkissjóðs og stóðu allir þingflokkar í hv. efh.- og viðskn. að samþykkt frv. Eftir á kom í ljós að við hefðum mátt skoða betur hvað þar var á ferð. Ég vil reyndar taka það fram að ýmsar athugasemdir voru gerðar við frv. og okkur þótti gæta býsna mikils misræmis, m.a. í

leyfisgjöldum til sérfræðinga og annarra sem ljúka prófum og fá sérstök leyfi hjá ráðuneytunum eða viðurkenningu á sínum réttindum.
    Því verður samt ekki neitað að við samþykktum þetta frv. Síðan það gerðist hefur verið bent á ýmsa galla og m.a. hafa lögmenn skrifað greinar í blöð um þetta mál og þá einkum til að benda á hve þung þessi gjöld geta reynst ýmsum þeim sem þurfa að leita til dómstóla eða fá einhverja gjörninga af hálfu hins opinbera. Ég minnist þess að þessi ákveðni lögmaður sem ég hef í huga varpaði fram þeirri spurningu hvort það samræmdist réttarríkinu og því að vilja virða lög og rétt að leggja stein í götu fólks með gjöldum af þessu tagi. Því er ekki að leyna að hér getur verið um býsna há gjöld að ræða. Því vil ég lýsa hér þeirri skoðun minni að þörf sé á því að endurskoða þessi lög og þá ekki síst, eins tekið er fram í tillögunni, að gjöldin séu í einhverju samræmi við þá þjónustu sem verið er að veita en ekki föst tala. Ég tel t.d. mjög óeðlilegt að menn þurfi að borga háar upphæðir fyrir það að fá að vinna sem sérfræðingar í sínu fagi hér á landi og hefði gaman af að vita hvernig þessi lög koma heim og saman við hið Evrópska efnahagssvæði, hvort hér er ekki enn eitt atriðið sem þarf að endurskoða.
    En í þessari umræðu eins og hinum fyrri sem átt hafa sér stað í dag kemur í ljós hversu nauðsynlegt hefði verið að dómsmrh. eða staðgengill hans hefði verið viðstaddur. Ég get ekki annað en endurtekið það enn einu sinni, eins og menn hafa gert í dag, að það er í raun og veru hálfankannalegt að ræða hér hvert málið á fætur öðru þar sem maður hefði gjarnan viljað leggja spurningar fyrir viðkomandi ráðherra að standa þá frammi fyrir því að þeir eru hvergi nærri. Hér hefði t.d. verið kjörið tækifæri til að spyrja hæstv. dómsmrh. um afstöðu hans til þessarar tillögu eða hvort endurskoðun á lögunum sé í bígerð. En eins og ég hef nefnt er hann hér hvergi nærri. Mér finnst þetta í rauninni algjörlega óviðunandi og við þingmenn hljótum að verða að taka á þessu með einhverjum hætti. Það er algjörlega tilgangslaust að vera að mæla hér fyrir hverju málinu á fætur öðru, menn vilja gjarnan fá ýmsar upplýsingar í umræðunni en þess er ekki nokkur kostur að fá þær fram.
    Ég vil ítreka þetta hér, virðulegi forseti, en nefni að lokum að ég tel þessa tillögu vera mjög góðra gjalda verða. Ég reikna með að hún komi til okkar í efh.- og viðskn. og við munum að sjálfsögðu skoða þetta mál rækilega þar.