Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 17:11:26 (1810)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að taka undir þetta mál. Ég tek undir kvartanir hennar yfir því að hér skuli vera fáir í salnum, ekki bara ráðherrar heldur líka þingmenn. Það er til siðs að skamma ráðherra fyrir að vera ekki hérna og því meira sem færri eru í salnum og mest þegar enginn er, en það eru ekki margir þingmenn staddir hérna heldur. Ég ætla ekki að gefa töluna upp. En það er út af fyrir sig rétt að það hefði verið upplýsandi fyrir okkur þingmenn að fá að vita hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að breyta eitthvað sínum venjum eða þeim venjum sem hafa viðgengist í sambandi við þjónustugjöldin og hvort hún er kannski með athugun í gangi á því að breyta lögunum um aukatekjur ríkissjóðs. Ég vona sannarlega að það verði gert og ég trúi ekki öðru. Þessi ríkisstjórn trúir svo mikið á þjónustugjöldin að ég trúi ekki öðru en hún vilji þó a.m.k. gera það sem hægt er til þess að þau verði framkvæmd með sem eðlilegustum hætti þannig að fólkið í landinu viti nokkuð nákvæmlega fyrir hvað það er að borga þegar það greiðir þjónustugjöld á sjúkrahúsum eða í skólum eða hvar sem er.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt meira en ég gleymdi því áðan að óska eftir því að þessi till. fari til umfjöllunar í efh.- og viðskn. og lýk þar með máli mínu.