Sjómannalög

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 17:35:00 (1816)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þakka hv. flm. fyrir það að flytja þetta mál inn á Alþingi. Ég tel að hann hreyfi þarna mikilvægu réttindamáli sem er ekki vansalaust fyrir okkur að skuli vera í pottinn búið og eins það hefur verið lengi og er enn í dag. Ég tel að það hljóti að vera hægt að finna leið til þess að sjómenn eins og aðrar stéttir þjóðfélagins fái að njóta þess að hafa svigrúm til að finna sér aðra vinnu þegar þeim er sagt upp. Ég tel að útgerðarháttum í landinu sé ekki þannig komið að menn hugsi nú ekki meira en mánuð fram í tímann þegar þeir eru að gera út og þess vegna þurfi þeir hvort sem er að velta því fyrir sér hvort þeir verði með menn í vinnu innan þess tíma sem venjulegur uppsagnarfrestur er eða sá lágmarksfrestur a.m.k. sem er í gildi hjá flestum atvinnustéttum.
    Þess vegna tel ég tíma kominn til að breyta þessu og er ekkert hræddur um að útgerðarmenn í landinu verði neitt í meiri vandræðum en aðrir atvinnurekendur voru þegar þeir stóðu allt í einu frammi fyrir því að það væri ekki nóg að segja mönnum: Komdu á morgun, góði, eða eitthvað slíkt eins og áður var. Nú er það liðin tíð hjá flestum atvinnustéttum að þannig hagi til að hægt sé að kalla menn til vinnu og senda þá heim fyrirvaralítið. Sjómenn eru að verða einir eftir með svona lítinn rétt.
    Ég þakka fyrir að þetta mál er komið í þingið.