Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 17:37:43 (1817)

     Flm. (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 200 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar. Tillagan er þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsrh. að láta athuga kosti þess að flytja höfuðstöðvar og starfsemi Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur. Verði niðurstaða hennar jákvæð hefji ráðherra þegar undirbúning að flutningnum.``
    Tillagan var lögð fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Í greinargerð fyrir tillögunni er þess getið að á undanförnum vikum og mánuðum hefur orðið mikil umræða um björgunarstarf Landhelgisgæslunnar í framhaldi af samþykktum Alþingis um kaup á nýrri björgunarþyrlu. Við undirbúning ríkisstjórnar og dómsmrh. að framkvæmd þessara samþykkta er fjallað um rekstrarskipulag gæslunnar og um samstarf hennar við björgunarsveit varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
    Hlutverk Landhelgisgæslunnar í björgunarstarfi við strendur landsins hefur ávallt verið mikið og mikilvægt. Með tilkomu þyrlureksturs gæslunnar hefur það vaxið og jafnframt náð til björgunar- og leitarstarfa á hálendi og í óbyggðum. Hlutverk hennar í björgunarstarfi hefur vaxið svo að það er nú einn veigamesti þátturinn í starfsemi hennar. Er því nauðsynlegt að við athugun á rekstrarskipulagi hennar og starfsemi verði brugðið ljósi á það hvar henni verði best valinn staður til frambúðar með tilliti til björgunarstarfa hér á landi og hins mikilvæga hlutverks sem hún gegnir í þeim.
    Margt mælir með staðsetningu í Keflavík og nefni ég hér enn nokkur atriði sem koma fram í greinargerð:
    Höfnin Keflavík-Njarðvík er allstór og vaxandi. Í nágrenni hennar á Suðurnesjum eru fiskihafnir í öllum sveitarfélögunum sjö. Í Grindavík og Sandgerði eru stórar fiskiskipahafnir og er mikil útgerð stunduð þaðan.
    Keflavíkurflugvöllur er best búni flugvöllur landsins, raunar einn af best búnu og öruggustu flugvöllum við norðanvert Atlantshaf. Nálægð hans við stóran hluta af fiskihöfnum landsins og siglingaleiðir að og frá þeim er ákjósanlegur kostur í björgunarstarfinu.
    Á Keflavíkurflugvelli er starfrækt björgunarsveit varnarliðsins og hefur hún yfir mun betri tækjum að ráða en við Íslendingar. Sveitin ræður yfir fleiri björgunarþyrlum en við, en einnig ræður varnarliðið yfir einstæðri tækni til eldsneytistöku á flugi sem mun nýtast mjög vel þegar leiðir til björgunar eða leitar gerast langar. Rætt er um aukið og nánara samstarf Landhelgisgæslunnar við sveitina. Einnig kemur til álita að Íslendingar taki að sér umtalsverð verkefni í starfi björgunarsveitar varnarliðsins, t.d. í björgunar- og leitarfluginu, sem mundi auðvelda samskiptin við íslenska aðila. Þá er álitsvert að stofna ásamt varnarliðinu til alþjóðlegrar björgunarsveitar sem hafi aðsetur á Íslandi og sinni þaðan björgunar- og leitarstörfum langt út frá landi og til fjalla um landið allt.
    Á Keflavíkurflugvelli rís nú þjónustumiðstöð Flugleiða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þangað mun félagið flytja allt viðhald á flugflota sínum, svo og á þeim flota Landhelgisgæslunnar sem það annast viðhald á. Með því verður á Keflavíkurflugvelli mjög góð og öflug aðstaða til að veita flugrekstri af því tagi, sem gæslan viðhefur, alla nauðsynlega þjónustu.
    Keflavíkurflugvöllur er eini alþjóðaflugvöllur landsins. Hann gegnir lykilhlutverki í samgöngum um norðanvert Atlantshaf, m.a. með starfrækslu flugstjórnarmiðstöðvar fyrir afar stór hafsvæði. Öryggismál þessara samgangna, þar með talin leitar- og björgunarstarfsemi, hljóta að hvíla á herðum Íslendinga.
    Á Keflavíkurflugvelli hafa Íslendingar gegnt stóru hlutverki í öryggismálum varnarliðsins, m.a. með því að stjórna og manna slökkvilið vallarins sem mikið orð fer af. Eðlilegt framhald þessa væri vaxandi þátttaka Íslendinga í starfi að fleiri öryggisþáttum og er björgunar- og leitarstarf rökrétt framhald.
    Að lokum tel ég æskilegt, virðulegi forseti, að kanna eftir föngum kosti og ókosti þess að staðsetja stjórnsýslu- eða löggæslustofnanir á borð við Landhelgisgæslu Íslands utan höfuðborgarsvæðisins og þá út frá fjárhagslegum og faglegum sjónarmiðum varðandi þá starfsemi sem í hlut á, svo og út frá sjónarmiðum byggðastefnu. Í því sambandi er sérstök ástæða til að skoða með gagnrýni mikilvægi eða nauðsyn þess að slíkar stofnanir starfi einungis á höfuðborgarsvæðinu. Ég hlýt að segja að ég tel það ekki náttúrulögmál.
    Mér virðist, virðulegi forseti, að staðsetning og starfsemi stofnana af þessu tagi geti verið þáttur og eðlilegt umræðuefni þegar rædd eru atvinnumál í tilteknum landshlutum. Atvinnumál á Suðurnesjum eru sérstök. Þar er atvinnuástandið langverst á landinu öllu, atvinnuleysi margfalt miðað við það sem er að meðaltali um landið allt. Það hlýtur að vekja athygli að á Suðurnesjum er einna minnst af almennum ríkisstofnunum staðsett miðað við aðra jafnfjölmenna landshluta. Þar eru eingöngu staðsettar þær ríkisstofnanir sem þjóna svæðisbundnu hlutverki.
    Ég tel það mikils um vert til að viðhalda byggð um landið, og ég hygg að fleiri munu taka undir það, að þjónustustörf og sérfræðistörf dreifist líkt og framleiðslustörfin. Þá gefur auga leið að flest hlutverk þess fólks sem eru sérfræðingar eða stundar þjónustustörf tengjast tilveru og starfsemi opinberra stofnana, þjónustustofnana eins og við köllum þær oftast.
    Fyrir liggur nýleg áskorun aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um að hugmynd þessi um flutning Landhelgisgæslunnar verði samþykkt á Alþingi. Ég vek athygli þingsins á þeirri samþykkt um leið og ég legg til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og til hv. allshn.