Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 17:50:13 (1819)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður varpaði fram þeirri spurningu hvort hlutverk Landhelgisgæslunnar væri að minnka. Miðað við umfangið eins og það er í dag með 750 þús. ferkílómetra svæði sem er rúmlega sjö sinnum stærra en landið sjálft, með það í huga að verið er að tala um að hugsanlega gætu skip annarra þjóða fengið leyfi til þess að veiða hér, með það í huga líka að við eigum forðabúr sem margar erlendar þjóðir vildu gjarnan geta sótt í og með það í huga líka að það gerist nú í ríkara mæli að skip erlendra þjóða þurfi að sigla hér um til þess að komast til Grænlands þar sem þau hafa fengið heimildir til veiða og síðast en ekki síst má nú líka búast við fjölgun erlendra veiðiskipa sem koma hingað í höfn til að landa afla sínum vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum á síðasta ári, þá hlýtur það að freista margra aðila að dýfa veiðarfæri sínu í sjó hér úti við miðlínu eða þar fyrir innan á öllu því hafsvæði sem ég gat um áðan. Hvernig ætlum við að gæta þess? Ætlum við að gæta hafsvæðisins, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni sem sat á fundi í fjárln. með landhelgisgæslumönnum í morgun, með einu varðskipi? Það liggur alveg ljóst fyrir að það er útilokað. Einhverjir spyrja: Hvað er átt við þegar talað er um eitt varðskip? Jú, það er hugmyndin að leggja varðskipinu Óðni og gera út Ægi og Tý. En vegna þess að það getur á stundum verið nokkuð löng sigling í heimahöfn eða úr heimahöfn til þeirra gæslusvæða sem viðkomandi skip á að hafa eftirlit með og vegna þeirra frídaga sem áhafnir þessara skipa eiga, því skip er venjulega bundið í höfn á meðan þeir taka sér frí, er það ljóst að meginhluta ársins yrði aðeins eitt skip á miðunum.
    Landhelgisgæslan hefur líka á að skipa Fokker-flugvél til þess að fljúga yfir miðin og fylgjast með en hún er ekki daglega í flugi og því síður að hún geti farið yfir allt það hafsvæði sem við þurfum að gæta. Frá mínum bæjardyrum séð erum við ekki að ganga í rétta átt með því að minnka umsvif Landhelgisgæslunnar. Það hefur komið fram að verulegur fjárskortur háir rekstri Landhelgisgæslunnar, eins og á við um svo mörg önnur ríkisfyrirtæki, vegna þess vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir varðandi fjármál almennt, sérstaklega ef litið er til ríkishirslunnar. En ég verð að segja það að svo ágæt sem hún er þessi till. til þál. um flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar, þá finnst mér að það vegi ekki þungt í rökum um flutning á Landhelgisgæslunni að fyrst og fremst sé verið að hugsa um ágæti þess að Keflavíkurflugvöllur sé nærri vegna flugflota Landhelgisgæslunnar. Engu að síður getur það samt sem áður verið hagkvæmt að staðsetja flugflota þar. En þegar til þess er litið að það kostar mikla fjármuni að flytja stofnun sem Landhelgisgæsluna til Keflavíkur, flutningurinn sjálfur kostar talsverða peninga og ég sé ekki annað en ráðast yrði í talsverðar hafnarframkvæmdir til þess að það gæti gerst, finnst mér tillagan hæpin. Enn fremur varðandi skipastólinn þó hann sé nú ekki að stækka eins og hér kom fram áðan. Engu að síður er það mjög þarft að fram komi þáltill. um Landhelgisgæsluna sem leiðir til þess að hennar starf sé skoðað.
    Ég hef lagt fram till. til þál. um heildarskoðun á Landhelgisgæslunni, á allri starfsemi hennar miðað við það verkefni sem við sjáum og það sem fram undan er. Það kemur ekki þvert á þessa þáltill. en hins vegar kemur þáltill. kannski þvert á stöðu fjármála eins og þau eru í ríkisbúskapnum núna.
    Ég endurtek það sem síðasti ræðumaður sagði áðan. Hvert erum við að stefna með Landhelgisgæsluna? Erum við að stefna í rétta átt á þeim tímum sem fram undan eru ef öðrum veiðiskipum verður heimilað að veiða innan landhelgi að takmörkuðu leyti og með það í huga líka að nú hafa erlend veiðiskip heimildir til þess að ferðast meira innan landhelginnar heldur en áður var? Í mínum huga er svo ekki.