Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:00:20 (1821)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Mig langar að leggja örfá orð í belg. Hér er náttúrlega um eitt af okkar stærstu málum að ræða og svo hefur lengi verið. Það er athyglisvert að ræða þetta á sama tíma og við erum að tala um fullveldisréttindi okkar og göngum langtum lengra en við gerðum áður. Þá var Landhelgisgæslan það sem sýndi hug þjóðarinnar kannski best þegar við fengum sjálfir að taka þátt í landvörnum okkar, sem voru auðvitað fyrst og fremst á sjónum, til að styrkja okkar auðæfi sem eru mest þar. Jafnvel þó að orkan sé mikils virði er það sjórinn sem við höfum lifað á. Ég endurtek að ég þakka fyrir það að fá tækifæri til þess að ræða þetta örlitla stund.
    Sannleikurinn er sá að við höfum ekki gengið nærri því nógu langt í því að efla Landhelgisgæsluna. Raunar er ekki verið að efla hana heldur hið gagnstæða, þ.e. að draga úr möguleikum hennar á því að verja landið okkar. Landið okkar nær æðilangt út. Það nær 350 mílur út af Reykjanesi og það er enginn sem getur gagnrýnt þá skoðun. Svæðið á milli 200 mílna og 350 mílna hefur í bókstaflegri merkingu ekkert verið varið. Það hefur verið rányrkt af gífurlegum flotum, sérstaklega Austur-Evrópuskipum, um langa tíð og er enn. Það er ekkert gert í því máli. Á þessu svæði einu sér eru gífurleg auðæfi fólgin í botnlægum tegundum. Við vitum það og þótt það væru ekki annað en krabbadýr og hvers kyns aðrar lífverur eru þær auðvitað mikils virði. Þar þarf að verja og efla allt líf í þágu þjóðarheildarinnar um aldur og ævi.
    Þar að auki eigum við lítið svæði eins og það sem kallað er Hatton-Rockall svæðið. Það eigum við einir ef miðlína er látin ráða á milli Bretlands og okkar. Þá eigum við allan Hatton-bankann. Hins vegar hafa Bretar beðið eftir því um margra ára skeið að við héldum áfram viðræðum við þá sem voru hafnar fyrir æðilöngu síðan um að nýta sameiginlega allt þetta svæði suður af landinu. Það eru margar þingsályktanir og aðrar ályktanir, líklega átta alls, sem ég hef flutt úr þessum ræðustól um hagnýtingu á þessum hafsvæðum. Ég hef unnið í því í áratug eða rúmlega það með ýmsum góðum mönnum, venjulega einum eða tveimur úr hverjum flokki. En við höfum ekkert sinnt því að halda áfram þessum viðræðum við Bretana. Þó er vitað að á því svæði eru mikil auðæfi í olíu. Þótt það væri ekki annað en að hindra jarðrask á þessu svæði höfum við tryggt það með þingsályktunum, af því að margar af þessum tillögum voru samþykktar þó að ekkert væri svo aðhafst þegar til átti að taka.

    Við eigum þar að auki að réttum lögum svæði langt norður í höfum. Þannig er að hin eðlilega framlenging landsins á okkar hafsvæði og okkar landsvæðum er nefnilega með þeim hætti að Ísland er hæsti punkturinn og hin eðlilega framlenging kemur frá efsta svæðinu og síðan út eftir botninum. Á Indlandi t.d. fara þeir 1.500 mílur út. Við höfum rétt á að fara í norður, alveg norður að pól. Þetta hefur verið talið ofstæki eða draumórar en það er það aldeilis ekki. Þetta eigum við allt saman ef menn hafa djörfung í sér til að hagnýta sér það og sameinast um það.
    Við erum nú að deila mjög hart um Evrópskt efnahagssvæði. Það er auðvitað hluti af þessu sama máli. Þetta er Íslandssagan sem við erum að skrifa þessa dagana. Ég vænti þess að á morgun og hinn daginn, daginn þar á eftir og um nánustu framtíð geri menn sér grein fyrir því að við erum hér að varðveita, efla, auðga og stækka þann auð sem þessi þjóð á. Þegar við hugleiðum það að fyrsta varðskipið okkar var að verja þrjár mílur en núna eigum við að verja á Reykjaneshrygg 350 mílur, á Hatton-bankanum fyrir 600 mílur og á Rockall-svæðinu sjálfu, þar sem mest er nú af olíumyndunum, svipað svæði.
    Ég hugsa að ég sé búinn að halda 100 eða 200 svona ræður úr þessum ræðustól. Menn segja sjálfsagt að ég sé hundleiðinlegur. Þá verður bara að hafa það. Ég vona að einhverjir, ég sé a.m.k. tvo eða þrjá sem hlusta mjög gaumgæfilega, vilji standa að því með mér og öðru góðu fólki hér í þinginu, því allt er þetta gott fólk sem hér er, að fara að gera sér grein fyrir hvar við stöndum. Við erum langsamlega auðugasta þjóð heimsins, allur þessi barlómur er út í bláinn þegar við horfum á hin gífurlegu auðæfi sem við höfum í sjónum, í honum og á honum og í sjávarbotninum. Þetta tilheyrir okkur allt saman að réttum lögum, bæði fyrir hefð og það sem kallað er áunninn eignarréttur en líka eftir beinhörðum bókstaf hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem byggist fyrst og síðast á 76. gr. hans sem er náttúrlega mjög flókin í sjálfu sér en hefur de facto verið túlkuð á þann veg sem ég er að segja um víða veröld.
    Ég hef verið á nokkrum fundum þar sem þetta hefur verið rætt, m.a. í Bretlandi þar sem voru menn frá Asíuríkjum t.d. Þeir hlustuðu grannt á það sem við voru að segja og gleyptu í sig þau gögn sem við gátum gefið þeim. Við höfðum nokkur gögn, t.d. samningana við Norðmenn um Jan Mayen-svæðið. Þar höfðum við gífurlegra hagsmuna að gæta, miklu meiri hagsmuna en menn virðast gera sér grein fyrir. Í Asíulöndunum hafa framfarirnar á þessu sviði verið mestar. Það eru Asíuþjóðirnar sem eru að hirða sín höf að réttum lögum en við erum athafnalaus, það gengur ekki lengur.