Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:21:51 (1827)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessi síðustu orð. Hins vegar gæti ég haft gaman af því að flytja smá ræðustúf um það og kann ég nokkuð til í þeim málum. En eitt svona til fróðleiks vegna þess að það er skylt því máli sem ég ætla að ræða um, þá vil ég minna hv. þm. Alþfl. á það, af því að við erum að tala um Landhelgisgæsluna, að aldrei, hv. þm., hefur landhelgin verið færð út við Ísland nema þegar Framsfl. hefur átt aðild að ríkisstjórn. Það er kannski stóra málið, hv. þm. Hvað skyldu þeir hafa verið að gera á viðreisnarárunum, Alþfl. og Sjálfstfl. í landhelgismálunum þegar þeir hrökkluðust frá? Ekki neitt. Hvar voru þeir staddir í uppbyggingu skipaflota landsmanna? Hvar voru þeir staddir með uppbyggingu fiskvinnslustöðvanna? Nei, við framsóknarmenn þurfum ekki að biðjast afsökunar á stjórn Framsfl. undanfarin 20 ár. En það er rétt, við gerðum ekki allt og gátum ekki gert allt. Það voru oft og tíðum flokkar með okkur í ríkisstjórn sem þvældust fyrir þjóðþrifamálum og þeir eru enn til staðar. Því miður er það svo.
    En það er mál á dagskrá á eftir sem lýtur að ekki óskyldu máli þannig að þessi umræða kemur þá aftur upp og við skulum þá eyða smástund í það. Tilbúnir erum við framsóknarmenn að ræða við Alþfl. um byggðamálin. Við erum tilbúnir að gera það, ég tala nú ekki um við Sjálfstfl.
    Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson velti því fyrir sér áðan, þegar hann ræddi um þessa tillögu, sem hér er flutt af hv. þm. Árna R. Árnasyni, um flutning starfsemi Landhelgisgæslunnar, hvert við værum að stefna. Ég er ekki hissa á því. Ég er ekki hissa á því þó að einn og einn sjálfstæðismaður sé farinn að hugsa um það í alvöru hvert við erum að stefna. Ég held nefnilega sem betur fer að menn þar í flokki séu að vakna til vitundar um það að þeir sem í brúnni standa þekkja ekki á kompásinn. Og því er ástæða að spurt sé: Hvert stefnum við? Að vísu átti hv. þm. við í þessu máli, þ.e. Landhelgisgæsluna. En það er bara tímanna tákn, þetta er á öllum sviðum. Þessir menn kunna ekki á kompásinn. Hvernig má það vera að á sama tíma og þessir sömu menn berjast fyrir því með oddi og egg að opna íslenska fiskveiðilögsögu fyrir erlendum veiðiskipum, þá vaða þeir fram --- og hvert er verkefnið? Á síðasta ári skáru þeir framlag til

Landhelgisgæslunnar niður að mig minnir um 50 millj. kr. Nú er áætlað að bæta um og nú skal skorið um 30 millj. Er nema von að fyrrv. formaður Sjómannafélags Reykjavíkur --- ( GHall: Núverandi.) og núverandi já, fyrirgefið --- spyrji: Hvert er verið að stefna?
    Er það virkilega svo að við ætlum að gefa Spánverjum það eftir að gösla hér um miðin án eftirlits? Ég hefði gaman af því að heyra í formanni utanrmn. hér á eftir ( Gripið fram í: Litlar veiðiheimildir en miklir möguleikar.) Hann er mælskur maður og glöggur og væri gaman að heyra hvernig hann sæi þetta eftirlit fyrir sér. Það er nú hvorki meira né minna en 758 þús. km 2 sem við þurfum að gæta. Það er allnokkurt hafsvæði.
    Ég hef trú á því að það sé meirihlutavilji hér á Alþingi fyrir því að vinna öðruvísi að þessum málum en núv. ríkisstjórn ætlar sér að ná fram. Kannski heldur hún það og reiknar með því að hún geti barið nógu stóran hóp til hlýðni í þessu máli. En ég dreg það í efa. Ég held að það séu nógu margir hér inni á Alþingi, sem betur fer, sem geri sér grein fyrir því að við höfum ekki efni á því að skera niður starfsemi Landhelgisgæslunnar. Við höfum það ekki í dag. Þess vegna velti ég því fyrir mér --- ég hef oft hlustað á hv. 4. þm. Reykv., sem hér stendur fyrir framan mig, Eyjólf Konráð Jónsson, flytja eldheitar ræður um rétt okkar á hafinu. Ég vil því spyrja þennan ágæta þingmann hvort hann vildi nú ekki reyna að leita leiða til þess hvort ekki væri hægt að ná meiri hluta fyrir því hér á Alþingi að þingmenn sameinuðust um það að flytja tillögu til þess að rétta hlut Landhelgisgæslunnar í þessu máli. Ég fullyrði það úr þessum ræðustól að það muni ekki standa á þingmönnum stjórnarandstöðunnar að fylkja liði með hverjum þeim stjórnarþingmanni sem vildi beita sér fyrir því að Landhelgisgæslunni væri gert mögulegt að starfa við eðlilegar kringumstæður.