Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:51:45 (1833)

     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Herra forseti. Þegar talað er um fjármál Landhelgisgæslunnar kemur það oft upp í huga mér það sem hér hefur verið rætt jafnframt, um flutning ríkisfyrirtækja út á land. Í áranna rás hefur það mál oft og tíðum dagað hér uppi í þinginu og er orðið eins og tískubóla. Það kemur upp að það eigi að flytja ýmis ríkisfyrirtækin út á land. Á tímum atvinnuleysis eins og nú er er náttúrlega ekkert annað verið að gera en að flytja atvinnuleysi á milli staða. Hitt er svo annað mál sem snýr að Landhelgisgæslunni og rekstri hennar að það eru ýmis önnur störf sem Landhelgisgæslan gæti sinnt en eru staðsett í hinum ýmsu ráðuneytum. Tökum til að mynda Vitamálastofnunina. Það væri eðlilegt að Landhelgisgæslan yfirtæki þau störf öll. Það þarf ekkert að fækka fólk við það en hins vegar væri hægt að hagræða í starfi. Það er hluti fiskveiðieftirlitsins sem nú fer fram með sérstökum hætti, þ.e. að eftirlitsmenn eru um borð í ýmsum veiðiskipum. Það er ein stofnun innan núverandi Fiskistofu sem sér um það og væri eðlilegt að Landhelgisgæslan sæi um það. Þá má líka tala um mengunarvarnir Siglingamálastofnunar og hluta jafnvel af Siglingamálastofnuninni. Það eru því næg verkefni fyrir Landhelgisgæsluna. Talsvert fjármagn liggur í öðrum ráðuneytum og öðrum ríkisfyrirtækjum sem væri eðlilegt að sameina til að efla þennan útvörð Íslands.
    En hitt er svo annað mál og það gerist sama hvaða ríkisstjórn er og hverjir ráðherrarnir eru. Það virðist vera af hinu vonda ef samræma á hluti eða hagræða á innan ráðuneytanna. Hvenær í ósköpunum getum við komið því svo fyrir að það gerist? Það gerðist ekki í fyrrv. ríkisstjórn og ekki í þeirri ríkisstjórn sem var á undan. Í mörg ár hefur verið talað um að efla Landhelgisgæsluna en það hefur aldrei náð fram að ganga vegna einhvers óskiljanlegs tregðulögmáls. ( Gripið fram í: Þú ættir að skera hana.) Vegna þess sem hér hefur verið talað um aukið fjármagn og annað sem þarf til Landhelgisgæslunnar, þá liggur það þannig fyrir að þetta er hægt.