Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:07:02 (1839)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála þeim ræðumönnum sem hér hafa sagt að með fjárlagafrv. fyrir næsta ár er ekki verið að leggja Landhelgisgæsluna niður. En ég ítreka það sem ég sagði áður að ég tel að það þurfi að taka ákvarðanir um framtíð gæslunnar á öðrum vettvangi en við afgreiðslu fjárlaga.
    Ég stend hér upp undir formerkjum andsvars til þess að vekja athygli hv. 2. þm. Austurl. á því að í nefndaráliti, sem ég stóð að þegar rætt var um þyrlukaup, var tekin afstaða til tillögu hans varðandi björgunarþjónustu og öryggisgæslu á Atlantshafinu. Það var tekið undir þessi sjónarmið og tekið undir þau sjónarmið að eðlilegt væri að við Íslendingar litum fram til þess tíma að hér þyrfti að halda uppi öryggis- og björgunarþjónustu í samvinnu við aðrar þjóðir. Það kemur líka fram í áliti flm. till. sem hér er til umræðu. Ég held að þetta sé fyrst og fremst öryggis- og björgunarþjónusta en ég held að við ættum einnig að huga að auknum verkefnum okkar sjálfra í öryggis- og varnarmálum á þessu svæði og þar komi Landhelgisgæslan til álita. Það á að skoða framtíðarhlutverk Landhelgisgæslunnar, m.a. með því hugarfari að átta sig á því hvar hún geti látið að sér kveða varðandi varnar- og öryggismál, ekki aðeins björgunar- og öryggismál.