Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:10:55 (1841)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið glöggt fram í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að Landhelgisgæslan á marga stuðningsmenn. Það hefur komið glöggt fram að hv. þm. vilja veg hennar sem mestan og það er út af fyrir sig eðlilegt. Landhelgisgæslan gegnir mikilvægu hlutverki. Engu að síður þegar herðir að í þjóðfélaginu og skoða þarf allan rekstur ríkisins þá vill það vera þannig og það gerðist í þessari umræðu, m.a. hjá hv. 2. þm. Austurl. og fleiri stjórnarandstæðingum, að þeir leggjast gegn öllum sparnaði, nánast hvaða nafni sem hann nefnist. Það fer minna fyrir því að bent sé á hvaða leiðir aðrar eigi að fara. Ég tel að Landhelgisgæslan verði að sæta því að þar sé reynt að spara og hagræða. En ég tel nauðsynlegt að það komi fram að að sjálfsögðu mun fjárln. þingsins skoða mjög rækilega alla möguleika til þess að skapa Landhelgisgæslunni betri skilyrði og betri aðstæður en liggja fyrir núna. Það hefur komið fram skýr vilji til þess innan fjárln. og hún mun hlusta rækilega, og það hefur hún gert, á hugmyndir og tillögur stjórnenda Landhelgisgæslunnar um það hvernig Landhelgisgæslan getur hagað sínum rekstri innan þess þrönga ramma sem við höfum. Á næstu dögum og vikum mun fjárln. skoða málefni Landhelgisgæslunnar af fullum velvilja og ég er sannfærður um að það fæst bærileg niðurstaða út úr þeirri skoðun.