Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:13:19 (1842)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. varaformanni fjárln., hv. 1. þm. Vesturl., fyrir hans orð. Það kemur í ljós hjá honum vilji til þess að endurskoða þessi mál í fjárlagagerðinni og ég fagna því sérstaklega. Það hefur komið fram almennur vilji í þessum umræðum til að skoða mál Landhelgisgæslunnar og til þess að koma í veg fyrir að hún verði að minnka þjónustu sína og leggja einu skipi.
    Ég vil aftur á móti mótmæla því sem hv. varaformaður fjárln. sagði að við stjórnarandstæðingar í fjárln. legðumst gegn öllum sparnaði. Ég vil minna á það að við síðustu fjárlagagerð ( GunnS: Þið vilduð leggja niður Ríkisskip.) fluttum við stjórnarandstæðingar ekki eina einustu tillögu til hækkunar fjárlaga. (Gripið fram í.) Við vildum ekki leggja niður Ríkisskip. (Gripið fram í.) Ef hv. 5. þm. Austurl. vill fara í umræður um skipaútgerðina og flutninga á ströndina væri hægt að taka þá umræðu síðar og ekki í andsvari vegna þess að nú er eftirleikurinn að koma í ljós. Nú eru skipafélögin að hækka sína taxta á ströndina, m.a. vegna þess að samkeppnin, sem þau bjuggu við, er farin að minnka.