Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:20:36 (1847)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom að því að hv. 3. þm. Reykv. útskýrði hvað hann átti við. Ég get ekki séð, hv. 3. þm. Reykv., að meðan slagurinn snýst um það að tryggja Landhelgisgæslunni fjármagn til þess að viðhalda lágmarksstarfsemi, sem allir eru sammála um að hún þurfi að gegna, þurfi nokkra sérstaka stefnumörkun. Um þetta snýst slagurinn þessar vikurnar.
    Í öðru lagi sýnist mér að það muni koma heldur betur við fjárlögin ef Landhelgisgæslan ætti að fara að taka að sér hlutverk í öryggisgæslu. Ég átta mig ekki alveg á því hversu mikið það ætti að vera tengt beinum hagsmunum Íslendinga og hversu mikið hagsmunum okkar samstarfsaðila innan NATO og á öðrum þeim vettvangi þar sem við tökum þátt í starfi.