Landgræðslulög

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 19:38:18 (1853)

     Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að endurflytja hér frv. til laga um breytingu á landgræðslulögum, nr. 17 frá 24. apríl 1965. Aðrir flm. eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Kristinn H. Gunnarsson.
    Þetta frv. er mjög í takt við þær almennu breytingar sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu í þá veru að ætla ekki sama aðila bæði að vinna ákveðið verk og vera svo jafnframt dómari yfir því hvernig til hefur tekist. Það ætlar líka einstaklingum vissan rétt gagnvart ríkisstofnun, rétt sem bundinn er í stjórnarskrá samkvæmt eignarrétti.
    Ég tel mig ekki þurfa að skýra það mál sem hér er lagt fram frekar svo augljóst sem það er. Við höfum verið að færa dómsvald frá sýslumönnum til dómara til að tryggja það að dómsvaldið sé óháð. Við lítum svo á að einn eigi að færa bókhald en annar eigi að annast endurskoðun. Þetta teljum við rökrétt vinnubrögð. Ég tel að sama hljóti að gilda um Landgræðsluna, að þar beri að breyta lögum á þann veg að þau séu í takt við okkar samtíð og þær breytingar sem við höfum gert á öðrum lögum með hliðstæðum hætti.
    Ég legg því til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.