Meðferð og eftirlit sjávarafurða

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 13:56:35 (1860)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Svo sem glöggir menn hafa e.t.v. tekið eftir kemur það fram á nál. að ég sat fundi nefndarinnar um þetta mál. Það kemur hins vegar ekki fram að ég sé samþykk þessari afgreiðslu málsins enda finnst mér ekki efni til þess. Ég hef ekki kost á að skrifa sérnefndarálit. Ýmislegt er ágætt í þessu frv. Þær leiðréttingar og lagfæringar sem gerðar hafa verið tel ég vera til bóta. Á því leikur enginn vafi.
    Þetta frv. er nefnilega bæði gott og vont. Fullkomið gæðaeftirlitskerfi er nauðsynlegt fyrir þjóð sem byggir alla sína afkomu á sjávarafurðum. Ég leyfi mér að fullyrða það á meðan svo stór hluti okkar efnahagslífs er háður þessari vöru og því að selja hana í sæmilegu ástandi. Þar af leiðandi er ég sammála því að ýmis ákvæði þessara laga eru ljómandi góð. Það eru settar fram skýrar kröfur um gæði sjávarafurða og það er búið að sníða ákveðna hnökra af frv. í brtt. þannig að ljóst á að vera hvaða aðili fer með ábyrgð og eftirlit á hverri afurð fyrir sig, bæði úr sjó og ferskvatni. Þetta er að sjálfsögðu til bóta.
    Það er alltaf spurning hvort kerfi sem verið er að byggja upp, eins og í þessu tilviki, sé fullnægjandi og hvort það sé skynsamlegt. Í versta falli tel ég að það kerfi sem þarna er verið að byggja upp, sem að vísu er undankomuleið út úr, sé hvorugt en það er hins vegar ágætlega flókið ef það er byggt upp með þeim hætti sem mögulegt er. Það er verið að færa eftirlit með meðferð sjávarafurða að hluta til í hendur einkaaðila og út af fyrir sig er ég ekki að hafa á móti því. Hins vegar er verið að staðfesta að þrátt fyrir allt verður eftirlit að vera í umsjá og á ábyrgð opinberra aðila því annars getum við ekki selt fiskinn okkar til helstu markaðslanda. Það tel ég mjög nauðsynlegt. Þessi ábyrgð er staðfest í frv. sem nú er lagt fram með þeim hætti sem það er lagt fram og það hefur fengist staðfest að sá háttur, sem hafður verður á hér, á að duga. Til eru að vísu menn sem hafa einhverjar efasemdir um það en ég vona að þær reynist rangar og ég er alveg sannfærð um að reynslan muni sýna okkur hvort svo verður eða ekki.
    Hins vegar held ég að það hefði verið heillavænlegra að fara þá leið að efla innra eftirlit fyrirtækja þar sem þau eru nógu burðug til þess að gera það og það er vissulega mögulegt með þessu frv. En að setja það sem skyldu að hafa samning við skoðunarstofu held ég að sé röng leið. Það liggur við að mér finnist að orðið skoðunarstofa sé orðin hálfgerð þráhyggja í umræðunni. En það er mitt persónulega mat.

Ég get að vísu stutt það í löngu máli í einhverjum röksemdum en ég tel það óþarft. Persónulegt mat er fullgilt.
    Fyrst og fremst er nauðsynlegt að það sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hver ber endanlega ábyrgð á því að þær kröfur séu uppfylltar sem þarf að uppfylla. Ljóst er að það verður á endanum á ábyrgð opinberra aðila og engra annarra. Ég er ekki að mæla með viðamiklu opinberu eftirliti en ég er að vara við því að það verði of laust í reipunum hver ber ábyrgð á hverju. Ég óttast það að annars vegar sé verið að segja að vissulega séu opinberir aðilar enn ábyrgir fyrir innra eftirliti en hins vegar sé hægt að varpa þessari ábyrgð á einkaaðila, þ.e. milliliðinn, skoðunarstofurnar. Svo getur það þýtt að hver kenni öðrum um. Innra eftirlitið sé ýmist með svipuðum hætti og nú er eða einhver skoðunarstofa úti í bæ beri ábyrgðina. Þetta finnst mér enn þá óþarflega loðið til þess að vel megi við una. Engu að síður held ég að reynslan sé sá húsbóndi sem gerir okkur nauðsynlegt að hafa þessa hluti í lagi. Ég geri ráð fyrir að þrátt fyrir hnökra á kerfinu muni reyndin verða góð vegna þess að öllum er ljóst hve mikið er í húfi.
    Það eru vissulega möguleikar innan þeirra ákvæða sem sett eru í frv. til þess að framfylgja þessu á fullnægjandi hátt og það verður að sjálfsögðu að gera. Við þolum ekki eitt einasta slys í sambandi við að gæði sjávarafurða séu ekki næg, kröfurnar ekki nægar og eftirlitið ekki nægt. Ég er ekki að segja að allt hafi verið í himnalagi fram til þessa. Ég er bara að gagnrýna þá leið sem hér er farin. Hins vegar vona ég að hún reynist vel og ég hef trú á því að kerfið sem hér er verið að setja upp muni smátt og smátt aðlagast því sem skynsamlegt er. Þá er vel mögulegt að ráðherrar nýti þá heimild sem lagt er til í brtt. við 14. gr. að hann hafi til þess að byggja frekar upp innra eftirlit og hafa það sem möguleika ásamt opinberu eftirliti frekar en treysta þessa milliliði, þ.e. skoðunarstofurnar.
    Ég ætla ekki að rekja alla þá viðamiklu umræðu sem orðið hefur innan sjútvn. vegna þessa máls. Ég held hins vegar að hún hafi verið af hinu góða. Málið liggur nokkuð skýrt fyrir eftir því sem hægt er miðað við þessa leið sem valin var. Ég held að fólk sé almennt meðvitað um kosti og galla þessa kerfis og þó ég sjái þarna ákveðna útleið frá göllum þessa kerfis í ráðherraheimild finnst mér mátinn að setja þetta sem heimild ráðherra afskaplega slæmur vegna þess að ég held að við ættum að láta okkar lög tala sem skýrast og binda sem fæst í ráðherravald. Í þessu tilviki er ég sammála því efnislega að sá möguleiki sé fyrir hendi en mér finnst aðferðin vond.
    Ég geri ráð fyrir að ég geti mælt með því að efnisleg ákvæði þessa frv. séu studd að öðru leyti en því að ég treysti mér ekki til að styðja að skoðunarstofurnar verði settar á fót. Ég hefði viljað sjá þar önnur ákvæði. Það varð ekki samstaða um það. Það er alveg greinilegt að það er mikill vilji til að koma nákvæmlega þessu batteríi á fót. Við því er út af fyrir sig ekkert að gera en ég get ekki stutt það ákvæði.
    Að öðru leyti vona ég að reynslan muni sýna okkur fram á hvernig þetta kerfi þarf að vera án þess að við tökum áhættu varðandi eftirlit og meðferð sjávarafurða því það megum við að sjálfsögðu ekki gera.