Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 15:03:32 (1870)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að þetta væri afar saklaus tillaga enda flutt af saklausum flm. Ég held að þetta sé Saklausi svallarinn sem flytur þessa tillögu vegna þess að í till. felast vissar hættur. (Gripið fram í.) En hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði líka að hann væri mikill kjarkmaður enda var hann svo mikill kjarkmaður að hann skipti um skoðun meðan ég var að tala. Nú vona ég að hann skipti aftur um skoðun. Þá er hann alfarið kominn yfir til okkar. (Gripið fram í.) Hann ætlar fyrst yfir til Ólafs en það er stutt leið --- það er eiginlega ekkert á milli okkar Ólafs. Hv. þm. er því á réttri leið. Og hann sagði: Hver er veruleikinn? Við getum ekki selt okkar síld. Veruleikinn er sá, hv. þm., að þrátt fyrir það að okkur gangi illa að selja okkar söltuðu síld gengur okkur best allra þjóða. Það er málið og segir meira en mörg orð. Hvernig stendur á því að allir þessir 52 síldarsaltendur telja þetta rétt? Nú skal ég reyna að skýra það rólega út fyrir þingmanninum hvers vegna þeir telja þetta rétt. Það er vegna þess að það saltar enginn nema hafa fyrir fram gerða samninga. Segjum svo að nú sé búið að gera samninga fyrir fram og segjum að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi ekki áhuga á að leggja niður síldarútvegsnefnd og síldarútvegsnefnd er búin að semja um ákveðið verð og bankarnir búnir að ganga í ábyrgð með afurðalánum. Síðan kemur einhver inn á markaðinn og undirbýður. Næsta ár á eftir er enginn tilbúinn að gera slíkan fyrirframsamning ef hann veit að það kemur miklu ódýrari síld á markaðinn. Þá er búið að brjóta niður þennan útflutning sem okkur gengur best allra þjóða með, þótt ekki gangi nógu vel. Rússarnir eru hættir að kaupa af okkur og það er aðalmálið en þeir eru stærstu kaupendurnir og það er ekki síldarútvegsnefnd að kenna.