Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 15:05:58 (1871)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað sem líður þeim ástarjátningum sem hér hafa hrotið af munni hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur til formanns Alþb. hafa æðri máttarvöld fellt sinn úrskurð. Þegar hún hóf mál sitt hér í dag, þá var sólarglæta í heiði. Hvað sjáum við núna? Það er farið að snjóa.
    Hv. þm. sagði áðan: Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt um síldarútvegsnefnd gengur henni og okkur samt betur en öllum öðrum að selja síld. Það kann vel að vera. En öll hennar fyrri ræða í dag gekk út á það að okkur gengi samt ekki nógu vel. Þýðir það þá ekki að við ættum e.t.v. að reyna að huga að því hvort ekki sé rétt að breyta fyrirkomulaginu. En látum það vera. Jafnvel þótt við komumst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki gengur tillaga klerksins einungis út á það að endurskoða lögin. Ég vil þá spyrja hinn ágæta framsóknarmann, hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur: Telur hún ekki, af því að hún fylgir flokki sem boðar frjálsa samkeppni, a.m.k. öðrum þræði, að nauðsynlegt sé að fella brott 6. gr. núverandi laga sem bókstaflega heimilar síldarútvegsnefnd að vaða með lögvernduðum rétti í bækur samkeppnisaðila? Telur hún það ekki? Ef hún telur það er hún um leið að segja að það þurfi að endurskoða lögin. Þar með er hún orðin sammála tillögu hv. þm. séra Gunnlaugs Stefánssonar.