Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 15:07:50 (1873)

     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem orðið hafa um þetta brýna mál. Mig langar til þess að vitna í grein sem formaður síldarútvegsnefndar skrifaði í Morgunblaðið 7. sept. Greininni var dreift í upplýsingabréfi frá síldarútvegsnefnd frá 13. okt. Það er mjög athyglisverð grein. Hún hefur komið á borð þingmanna og ég skora á þingmenn að lesa hana. Þar segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Hér skal enginn dómur á það lagður hvort núv. fyrirkomulag á sölu og útflutningi saltsíldar sé það heppilegasta sem völ er á enda verða aðrir að dæma um það en við sem störfum undir slíku fyrirkomulagi.``
    Ég held að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir hefði líka átt að lesa þessa málsgrein úr blaðagrein formanns síldarútvegsnefndar er hún flutti sína ræðu hér áðan og fleiri málsgreinar úr þessari blaðagrein sem hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir sleppti í sinni ræðu. Það er einmitt það sem ég er að leggja hér til og formaður síldarútvegsnefndar nefnir í sinni grein, að það verði að endurskoða þessi mál núna frá grunni í ljósi allra aðstæðna. Það getur enginn verið á móti endurskoðun. Ef endurskoðunin leiðir það í ljós að við búum við besta fyrirkomulag sem hægt er að hugsa sér, þá verður svo áfram. En ef það kynni að vera að endurskoðunin mundi leiða það í ljós að aðrir starfshættir hentuðu betur væri það vel. Ég veit að allir hv. þm. vilja hafa það sem best reynist og það er ekki verið að leggja annað til með þessari þáltill.
    Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi að eitthvað hefði brugðist. Ég hef ekki tekið svo djúpt í árinni að segja að eitthvað hafi brugðist varðandi útflutning á saltaðri síld. Ég hef meira að segja sagt að síldarútvegsnefnd hafi unnið mjög gott starf. Ég er aftur á móti að reyna að leggja áherslu á að reyna að finna bestu leiðir til að efla þá atvinnustarfsemi á ný í byggðum landsins sem er að salta síld. Það er vá fyrir dyrum.
    Þegar hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir segir að við séum enn þá bestu seljendur, ekki einvörðungu bestu veiðendur, heldur bestu seljendur saltaðrar síldar þá minnist ég þess að í fréttabréfi frá síldarútvegsnefnd sem barst til hv. þm. í haust er lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna vaxandi sóknar Kanadamanna á hefðbundna markaði Íslendinga og sölu saltaðrar síldar á Norðurlöndum. Þar er lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna þess að Kanadamenn séu að koma sterkari inn á markaðina en verið hefur allt fram til þessa.
    Ég gat ekki lesið annað út úr þessari fréttatilkynningu en að það kynni að vera að Kanadamenn, jafnvel fleiri, væru farnir að veita okkur nokkuð mikla samkeppni í því að verða bestu seljendur. Það mátti jafnvel efast um það af orðalagi tilkynningarinnar hvort við værum enn þá bestu seljendur eins og við höfum verið allt fram til þessa.
    Það kom einnig fram í þessari merku tilkynningu síldarútvegsnefndar að nú væri mikið framboð vegna aukinna veiða á saltsíld á öllum mörkuðum og ekki síst þá reynir mjög á að við getum notið þess besta fyrirkomulags heima fyrir er leggi alla okkar krafta í að finna bestu markaði og hæsta verð sem völ er á.
    Ef við ætlum að láta þá starfshætti ráða er hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir talaði fyrir áðan, þá mundi hún leggja til að setja höft, einokun og einkarétt á alla útflutningsstarfsemina. Því ef þau rök gilda sem hún leggur fram fyrir því að það þurfi að verja einkarétt, það þurfi að verja ákveðið sérleyfi síldarútvegsnefndar og það þurfi að verja ákvæði laga um einkaleyfi hljóta þau að gilda líka um alla aðra útflutningsstarfsemi. Spurningin er sú hvort það eigi ekki að gilda líka um innflutningsstarfsemina. Ef það tryggir hæsta mögulega verð og bestu markaði að hafa einokun og þröng ákvæði laga er tryggja einkarétt

eins og er í lögum um síldarútvegsnefnd hlýtur það líka um leið að tryggja besta og hagkvæmasta verð á vörum er við flytjum inn í landið.
    Það er nauðsynlegt að spyrja í tilefni af þessari ræðu hvort þetta sé stefna Framsfl. Ég veit það að hv. þm. Jón Kristjánsson tekur ekki undir þessa stefnu en hvort þetta sé ný stefna hv. þm. og formanns Framsfl. Steingríms Hermannssonar sem hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir hefur numið hjá, það veit ég ekki en hér hafa fallið svo stórar yfirlýsingar hjá forustumanni Framsfl. í Vesturlandskjördæmi að það verður að leita eftir svörum.
    Virðulegi forseti. Ég held að þessar umræður hafi leitt það rækilega í ljós að það þurfi að endurskoða þessi lög og löngu kominn tími til þess. Ég trúi því að það verði stefna Framsfl. líka þegar þetta mál verður skoðað þar í ljósi allra aðstæðna og þegar málsvarar flokksins í þessu máli fara að leita sér þekkingar verði niðurstaðan sú að þeir leggi jafnvel til enn meiri breytingar en hér hefur verið rætt um, enda eru framsóknarmenn framsýnir menn þegar á reynir. Sérstaklega þegar þeir eru í ríkisstjórn --- eða hvað? ( JónK: Alltaf.) Alltaf. Rétt hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni.
    Að lokum vona ég að hv. þingnefnd taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og að sú athugun muni leiða í ljós að bættir og skynsamlegri starfshættir megi ríkja varðandi þennan útflutning í framtíðinni. Ekki vegna síldarútvegsnefndar heldur vegna atvinnulífsins í landinu.