Eignarhald á Brunabótafélagi Íslands

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 10:45:01 (1883)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. hljóðar svo:
    ,,Liggur fyrir lögformleg hlið eignarhalds á Brunabótafélagi Íslands?``
    Samkvæmt 1. gr. laga um Brunabótafélag Íslands, nr. 9/1955, með síðari breytingu, er félagið gagnkvæmt ábyrgðarfélag vátryggjenda. Samkvæmt 12. gr. sömu laga eru allir þeir sem hafa vátryggingar hjá félaginu félagsmenn þess á meðan þeir hafa tryggingarskipti við félagið. Líkt og um gagnkvæm ábyrgðarfélög ábyrgjast félagsmenn að iðgjaldasjóður félagsins standi í skilum. Ábyrgðin nær þó aðeins til þeirra eigna sem vátryggðar eru í félaginu. Heimilt er með ákveðnum skilyrðum þó að innheimta aukagjald hjá félagsmönnum. Hér vaknar því spurning um hver sé hinn raunverulegi eigandi félagsins, sveitarfélögin, sem semja við Brunabótafélagið um vátryggingar allra húseigna í sveitarfélaginu, eða húseigendurnir sjálfir. Hér má benda á að skv. 21. gr. laganna má greiða félagsdeildum eða félagsmönnum ágóðahlut af skyldubundnum fasteignatryggingum þegar varasjóður Brunabótafélagsins hefur náð ákveðnum styrk. Með reglugerð nr. 239/1985, um greiðslu ágóðahluta hjá Brunabótafélagi Íslands, eru settar nánari reglur um þetta. Þar kemur fram að ef Brunabótafélagið hefur gert sérsamning við tiltekið sveitarfélag um lækkun fasteignaiðgjalda í sambandi við auknar og endurbættar brunavarnir í sveitarfélaginu, þá sé félaginu rétt að greiða sveitarfélaginu sjálfu, þ.e. félagsdeildinni, ákveðinn tiltekinn ágóðahlut af árlegum tekjuafgangi fasteignatrygginganna þar á staðnum. Ágóðahluti annarra skal hins vegar að jafnaði greiðast til vátryggðra sjálfra þannig að ákvarðaður ágóðahluti greiðist sem lækkun eða frádráttur af iðgjöldum næsta árs á eftir.
    Önnur spurning hljóðar svo: ,,Hversu mörg sveitarfélög eiga aðild að fulltrúaráði Brunabótafélagsins?``
    Skv. 5. gr. laganna skiptist Brunabótafélagið í deildir og er hvert sveitarfélag sérstök deild. Ári eftir reglulegar sveitarstjórnarkosningar skal hver kaupstaður eða bær utan Reykjavíkur og allar héraðsnefndir í landinu, sem gert hafa samning um fasteignatryggingar hjá félaginu, tilnefna einn mann hvert og annan til vara í fulltrúaráð fyrir félagið. Nú eiga allir kaupstaðir og bæir á landinu aðild að fulltrúaráði Brunabótafélagsins nema Reykjavík, sem annast sínar brunatryggingar sjálf, og Hafnarfjörður sem sagði skilið við félagið árið 1985. Þessir aðilar eru 29 talsins og eiga 29 fulltrúa. Allar héraðsnefndir landsins, 21 að tölu, eiga fulltrúa í fulltrúaráðinu. Fulltrúaráðið er nú skipað 50 fulltrúum. Héraðsnefndirnar skipa sinn fulltrúa eingöngu með atkvæðum þeirra sveitarstjórna í nefndinni sem hafa samning um brunatryggingar fasteigna við Brunabótafélagið. Þetta munu nú vera liðlega 100 sveitarfélög.
    Þriðja spurningin var: ,,Hvaða réttindi og skyldur fylgja aðild að fulltrúaráði félagsins?``
    Í 6. gr laganna er fjallað nánar um fulltrúaráðið. Þar kemur fram að Brunabótafélagið skal kalla það saman til aðalfundar fjórða hvert ár, næsta ár á eftir reglulegum sveitarstjórnarkosningum. Fulltrúaráðið skal auk þess kalla saman til aukafundar hvenær sem framkvæmdastjórn ákveður og ætíð ef eigi færri en þriðji hluti fulltrúaráðsmanna óskar þess. Á aðalfundi fulltrúaráðs skal kjósa þrjá menn í framkvæmdastjórn fyrir félagið og þrjá til vara, alla úr hópi fulltrúaráðsmanna. Þar skal og ræða um rekstur félagsins, afkomu og framtíðarhorfur og taka til athugunar hvað unnt er að gera til hagkvæmra brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og brunavarnir og einnig um aðrar tryggingar er félagið kynni að takast á hendur. Félaginu er stjórnað af forstjóra sem ráðherra skipar í samráði við framkvæmdastjórnina. Réttindin sem fylgja aðild að fulltrúaráðinu eru því þau að eiga aðild að allri stjórn félagsins og skyldurnar eru þær sem af því leiðir, þ.e. að stjórna félaginu með þeim hætti að fjármunir þess hrökkvi fyrir bótagreiðslum.
    Fjórða spurning hljóðar svo: ,,Telur ráðherra koma til greina að Brunabótafélagið verði gert að sveitarfélagi með eignaraðild þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að fulltrúaráði félagsins? Yrði eignarhlutur hvers þeirra þá metinn í samræmi við iðgjaldagreiðslur húseigenda fyrir brunatryggingar sl. fimm ár?``
    Brunabótafélag Íslands verður ekki gert að hlutafélagi nema með því að slíta því fyrst. Aðalfundur fulltrúaráðsins 1991 og aukaaðalfundur þess 1992 hafa einróma óskað eftir því að félaginu verði ekki slitið. Engin ákvörðun hefur verið tekin um þetta mál í heilbr.- og trmrn. Hins vegar hef ég ákveðið að skipa nefnd sem fær það verkefni að endurskoða lögin um Brunabótafélag Íslands m.a. með það fyrir augum að ákveða hver verði framtíð þess félags.