Reiðvegaáætlun

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 10:59:20 (1893)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Þann 7. febr. 1991 var samþykkt á hinu háa Alþingi þál. um reiðvegaáætlun sem hljóðar svo með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa nefnd með þátttöku samtaka hestamanna og sveitarfélaga til þess að kanna ástand reiðvega og gera reiðvegaáætlun.``
    Mér er kunnugt um að nefnd þessi var skipuð, mér er einnig kunnugt um að nefndin hefur ekki verið mjög starfsöm. Á nýafstöðnu landsþingi hestamannafélaga kom fram mjög hörð ádeila á þetta nefndarstarf og það áhugaleysi sem virtist ríkja um framkvæmd nefndarstarfsins. Af því tilefni var samþykkt á þessu þingi Landssambands hestamannafélaga, sem haldið var á Flúðum 30.--31. október sl., með leyfi forseta, svohljóðandi ályktun:
    ,,Þing LH haldið að Flúðum 30.--31. október 1992 samþykkir að heimila stjórn LH að ráða sérfróðan starfskraft. Verksvið hans verði að vinna úr þeim gögnum um reiðvegi landsins sem nú liggja fyrir og afla nýrra upplýsinga ef þurfa þykir, samræma þau og gera heilsteypta reiðvegaáætlun. Ráðningartími verði sex mánuðir og verði stjórn LH falið að tryggja fjármagn til verksins.``
    Af þessu má ráða að Landssamband hestamannafélaga er uppgefið á þeim seinagangi sem ríkt hefur í þessu nefndarstarfi. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra þó svo ég geri mér grein fyrir því að það komi ekki fram í þeirri fsp. sem hér lá fyrir þinginu: Er samgrn. tilbúið til þess að styrkja Landssamband hestamanna fjárhagslega til þessa verks?
    Það má segja að samþykkt þessarar þál. á sínum tíma feli í sér þá viðurkenningu að umferð hesta og manna á hestum sé hluti af samgöngum landsmanna og því hlýtur það að vera eðlilegt að Vegagerð ríkisins verði falið það verk að sjá um reiðvegagerð og viðhald reiðvega. Þetta er ekki síst hagsmunamál hestamanna í þéttbýli þar sem oft getur verið örðugt fyrir hestamenn og hesta að komast um vegna mikillar umferðar þar sem ekki er um skipulagða reiðvegi að ræða og ekki síður út frá því sjónarmiði og þeirri slysahættu sem fylgir því að vera með umferð hesta innan um aðra umferð.
    En vegna þess hversu seint hefur gengið í þessu nefndarstarfi þá hef ég borið fram fsp. til samgrh. um reiðvegaáætlun, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um reiðvegaáætlun sem samþykkt var á Alþingi 7. febr. 1991 þar sem gert var ráð fyrir að samgrh. skipaði nefnd með þátttöku samtaka hestamanna og sveitarfélaga til þess að kanna ástand reiðvega og gera reiðvegaáætlun?``