Reiðvegaáætlun

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:04:56 (1895)

     Árni M. Mathiesen :
    Herra forseti. Ástæður þess að það er nauðsynlegt að gera reiðvegi eru tvær. Það er annars vegar öryggi hestamanna og annarrar umferðar þar sem þær koma saman og hins vegar hætta á gróðurskemmdum á viðkvæmum gróðurlendum þar sem hestamenn fara um. Grundvöllur þess að úr sé hægt að bæta er að fyrir liggi áætlun um gerð reiðvega og að það sé hægt við meðferð vegáætlunar að samræma afgreiðslu og fjárframlög til beggja þessara þátta. Það kom fram á þingi Landssambands hestamanna, þar sem ég hafði ásamt öðrum framsögu um þetta málefni, að starfshópur um reiðvegi hefur hafið störf og hefur lagt til að Vegagerðin leggi til fjármagn til að kosta þann starfsmann sem fyrirspyrjandi tilgreindi í upphafsorðum sínum hér.