Reiðvegaáætlun

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:08:28 (1898)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svarið og þátttöku hv. þm. í umræðunni. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að starf nefndarinnar væri komið vel af stað og auðvitað ekki hægt að segja til um það nákvæmlega hvenær því muni ljúka. Það skil ég mætavel. Mér finnst í raun og veru sú samþykkt, sem gerð var á þingi Landssambands hestamanna um að landssambandið sjálft ætlaði að ráða sér starfsmann til þess að flýta fyrir verkinu, segja allt um það hversu mikil ánægja ríkir um þetta nefndarstarf í röðum hestamanna. Hins vegar komu fram fróðlegar upplýsingar hjá hv. 3. þm. Reykn., Árna M. Mathiesen, og ég fagna því sérstaklega að komið hafi fram tillaga um að Vegagerðin fjármagni að hluta til eða af hálfu leyti þann starfsmann sem Landssamband hestamanna ætlar að ráða til þess að sinna þessu verkefni. Það er fróðlegt vegna þess að hæstv. samgrh. svaraði því ekki áðan hvort ráðuneytið væri tilbúið til þess að fjármagna þetta með Landssambandi hestamanna. Hins vegar hlýtur Vegagerðin að hafa fengið heimild hæstv. ráðherra til þess að ráða mann í slíkt verk og ég vil sérstaklega fagna því og vonast til þess að hæstv. samgrh. fylgi þessu máli eftir og veiti því þann stuðning sem með þarf.