Landbúnaðarstefna

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:11:17 (1900)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Herra forseti. Óhætt er að fullyrða að aldrei á síðari hluta þessarar aldar og jafnvel lengra aftur hefur ríkt jafnmikil óvissa og öryggisleysi í íslenskum landbúnaði og nú. Af ástæðum sem öllum eru kunnar hafa bændur gert búvörusamninga við ríkið þar sem framleiðsla skal dregin saman og fjárveitingum til útflutningsbóta hætt. Á móti skuldbatt ríkisstjórnin sig til að aðstoða bændur til aðgerða sem gætu vegið á móti samdrættinum.
    Því miður hefur þyngst fyrir fæti og forsendur breyst síðan samningurinn var gerður í mars árið 1991. Alvarlegasta áfallið er tvímælalaust kollsteypan í efnahagsmálum eftir valdatöku ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar með ört vaxandi atvinnuleysi. Það kemur í veg fyrir að bændur geti fengið hlutastarf eða fulla vinnu í nágrenni sínu þó þeir búi áfram á jörðum sínum eins og gerst hafði í vaxandi mæli fram að þeim tíma. Jafnframt hefur ríkisstjórnin dregið úr framlögum sínum samkvæmt búvörusamningnum og bókunum sem honum fylgja samhliða stórfelldum samdrætti í öðrum fjárveitingum.
    Þar má nefna yfir 300 millj. kr. niðurskurð á þessu ári á samningsbundnu framlagi til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Enn er hann skorinn niður um 50 millj. kr. frá ákvæði núgildandi samnings í fjárlagafrv. fyrir árið 1993. Í því frumvarpi er miklu víðar gengið rösklega til verks í sömu átt. 100 millj. kr. árlegt sérstakt framlag til ráðstöfunar hjá Byggðastofnun vegna bústofnsfækkunar er alveg svikið eins og gert var á þessu ári. Fjárveitingar til landgræðslu og skógræktar eru beinlínis lækkaðar og því minna en ekki neitt eftir af 2 milljarða fyrirheiti í það verkefni á næstu árum. Framlag í Lífeyrissjóð bænda lækkaði um 85 millj. kr. og niðurgreiðslur á ýmsar búvörur lækkaðar um yfir 40% eða 200 millj. kr. Engar fjárveitingar eru samkvæmt jarðræktarlögum til framlaga vegna framkvæmda á þessu og næsta ári. Öll framlög til rannsókna, skóla og leiðbeiningaþjónustu lækka þó hjá öllum öðrum þjóðum sé sú starfsemi talin lífsnauðsyn við aðstæður eins og hér eru nú til að snúa vörn í sókn.
    Verst af öllu virðist þó ætla að verða stefna ríkisstjórnarinnar í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem sífellt eru að koma í ljós fleiri hættur fyrir íslenskan landbúnað. Formaður landbn. nefndi nýlega að hætta gæti orðið á að allt að 15% markaður fyrir mjólk og mjólkurvörur hyrfi. Nú hefur EB gert nýja kröfu um að ekki verði lagt jöfnunargjald á kjötvörur. Í samningaviðræðum herðir EB stöðugt kröfu sína um að þeirra reglur skuli gilda á sem flestum sviðum þar sem EFTA-löndin verði hvort sem er gengin þar inn eftir fá ár.
    Þannig virðist ríkisstjórn Davíðs Oddssonar stefna að því leynt og ljóst að koma landbúnaðinum á kaldan klaka.

    Ég hef því borið fram eftirfarandi fsp. til hæstv. landbrh. á þskj. 193:
    ,,Hver eru aðalatriðin í landbúnaðarstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar?``