Landbúnaðarstefna

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:24:20 (1905)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Varðandi fsp. hv. 1. þm. Norðurl. v. um hvers sé að vænta um stuðningsaðgerðir við atvinnulíf í sveitum er það að segja að atvinnumálin eru í heild sinni í athugun hjá ríkisstjórninni, eins og hv. þm. veit fullvel, í samráði og samvinnu við aðila í þjóðfélaginu.
    Hitt veit ég að hv. þm. veit vel úr sínu kjördæmi að sporin hræða í sambandi við skipulagðar stuðningsaðgerðir við atvinnulíf í sveitum og er nærtækt að minnast á loðdýrarækt í því sambandi sem hv. síðasti þm. veit enn betur en ég sem formaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins.
    Um hitt er hálfbroslegt sem hv. þm. viku að, þingmenn Sunnlendinga, í sambandi við hvort ég vildi sérstaklega stuðla að því að kjöt og mjólk yrði selt á bílastæðum.
    Í sambandi við þá kjötsölu sem var á dögunum í Kolaportinu þá er hún í samræmi við búvörusamning sem þessir tveir hv. þm. stóðu að í tíð hinnar fyrri ríkisstjórnar. Það var ekki annað en túlkunaratriði og raunar ekki annað en spurning um ritvinnslu fyrir mig að svara því til að búvörusamningurinn gilti einnig fyrir bóndann á Garði í Mývatnssveit í Þingeyjarsýslu eins og um aðra bændur.
    Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að of strangar reglur um afurðir bænda yfirleitt hafi skaðað þá verulega og ég hef orðið var við að þeir eru æ fleiri sem gera sér grein fyrir því. Ekki síst kannski þeim hluta kerfisins að láta sláturhúsin standa undir verslun og ýmsum öðrum hliðargreinum í kaupfélögunum eins og við sjáum víða stað og höfum jafnframt nýlegt dæmi um sem ég hef því miður ekki tíma til að rekja nú.