Kjör sjómanna á kaupskipum

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:27:01 (1906)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum mánuðum hafa farið fram vaxandi umræður um kjör íslenskra og erlendra sjómanna á kaupskipum sem héðan eru gerð út eða leigð á vegum íslenskra skipafélaga. Í fersku minni eru umræður sem fóru fram m.a. um kjör, réttindi og aðstöðu útlendra manna sem voru ráðnir á eitt af þeim skipum sem tengdust Eimskipafélagi Íslands hf. Það var augljóst af þeim umræðum að verulegur misbrestur er á því að eðlilega sé með þessi mál farið af hálfu skipafélaganna. Þá er ég ekki fyrst og fremst og eingöngu að tala um hin íslensku skipafélög heldur líka erlenda aðila sem eiga skip sem hér eru notuð.

    Nú er það svo að samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er gert ráð fyrir því að hér verði í vaxandi mæli um það að ræða að fjölþjóðaáhafnir verði á hinum ýmsu skipum. Það hefur auðvitað verið svo að farskipaútgerðin hefur búið við það lengi að hér hafa getað starfað erlendar útgerðir með beinum og óbeinum hætti þannig að það er ekkert nýtt samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Hins vegar er nýtt í þessu efni að aðstaða til þess að fylgjast með kjörum, réttindum og möguleikum starfsmanna til eðlilegs aðbúnaðar mun breytast með þessum samningi í verulegum mæli. Það er óhjákvæmilegt fyrir Íslendinga þess vegna að athuga hvort ekki er nauðsynlegt að verða aðili að þeim fjölmörgu alþjóðlegu sáttmálum sem eru til um áhafnir á kaupskipum en við höfum ekki gerst aðilar að. Það stafar kannski fyrst og fremst af því að menn hafa ekki talið fulla þörf á því af því að það hefur verið tiltölulega auðvelt að halda utan um þau mál sem hafa snert íslenskar kaupskipaútgerðir.
    Nú verður þessi markaður auðvitað stöðugt alþjóðlegri á komandi árum, burt séð frá því hvort Íslendingar verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði eða ekki. Af þeim ástæðum hef ég leyft mér að bera fram til hæstv. félmrh. fsp. um hvort ætlunin sé að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt nr. 147 um lágmarkskröfur á kaupskipum samþykkt sem gerð var á allsherjarþingi Alþjóðavinnumálastofnunar 1976.