Kjör sjómanna á kaupskipum

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:34:32 (1908)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hvort það sé ekki þannig að menn hafi eina mínútu en ekki hálfa þegar þeir gera athugasemdir. Það stóðu 30 sekúndur í klukkunni þegar ég steig í stólinn en nú er búið að breyta því þannig að ég er fyllilega sáttur við þetta. Eru það ein eða tvær, virðulegi forseti. ( Forseti: Hv. fyrirspyrjandi hefur tvær mínútur.) Ég þakka forseta.
    Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem félmrn. gaf í þessu máli. Ég skil svör hennar þannig að ráðuneytið telji að ekkert sé í vegi fyrir því að fullgilda þessa samþykkt. Ég tel einnig mikilvægt að félmrn. er að reka á eftir samgrn. í þessu máli og býst við formlegri afstöðu frá því í byrjun desember. Auðvitað hefði verið best ef það hefði verið hægt að spyrja hæstv. samgrh. að bragði í þessum sama fyrirspurnatíma, en ég mun hinkra með það og geri það ekki fyrr en síðar í vetur ef þörf krefur.
    Tilefni fsp. minnar er það að fyrir nokkrum dögum bárust mér upplýsingar um að skip á vegum íslenskra aðila hefðu gert um það sérstakan samning við hafnaryfirvöld í sænskri borg að áhöfnin á skipinu gæti ekki einasta stundað störf um borð meðan skipað er upp úr skipinu heldur gæti líka tekið að sér störfin á bryggjunni, þ.e. keyrt trukkana, lyftarana og séð um þau störf að öðru leyti. Slíkt væri brot á samningum og til þess að stöðva slíkt hefði Ísland þurft að vera aðili að þessari samþykkt.
    Ég fékk um þetta upplýsingar frá, ég hygg að það heiti, Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu og það er tilefni fyrirspurnarinnar sem hér var lögð fram. Ég tel mikilvægt að hæstv. félmrh. hefur sýnt jákvæðan hug í þessu máli og þegar gripið til aðgerða sem munu stuðla að því að Ísland fullgildi þennan sáttmála.