Könnun á atvinnuleysi

47. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 11:44:24 (1911)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir að flytja þessa fsp. og vekja athygli á því alvarlega máli sem við stöndum frammi fyrir núna á Íslandi í fyrsta sinn að það þarf að taka þau mál föstum tökum sem lúta að atvinnuleysisskráningu.
    Atvinnuleysisskráningin eins og hún er venjulega birt og umtöluð snertir eingöngu það fólk sem á rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð. Hins vegar er alveg ljóst að fjöldi fólks á ekki rétt á bótum samkvæmt þeim lögum og eru þar af leiðandi fyrir utan þessa tölu. Þar er ég að tala um einyrkja af ýmsu tagi, bílstjóra, sjómenn, bændur, ég er að tala um námsmenn úr framhaldsskólum og jafnvel á háskólastigi sem ekki fást skráðir í þessu kerfi eins og það er í dag. Ég held að það sé nauðsynlegt að halda þessum skoðanakönnunum áfram út af fyrir sig en ég held að það sé meginmál að breyta okkar lögum og reglum þannig að það verði tryggt að allir í landinu sem eru atvinnulausir fái atvinnuleysisbætur.