Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 14:03:16 (1920)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í nál. 2. og 3. minni hluta allshn. er það skoðun meiri hluta nefndarfólks allshn. að krafan um þjóðaratkvæði sé krafa um lýðræðisleg vinnubrögð í meðferð þessa máls. Á sömu forsendum hafa öll fjölmennustu launþegasamtök landsins krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, einnig hagsmunasamtök á borð við Neytendasamtökin að ógleymdri áskorun liðlega 34.000 kjósenda víðs vegar að af landinu.
    Samkvæmt skoðanakönnunum vilja um 70% þjóðarinnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Víða erlendis, ekki síst í Evrópu, hefur farið fram ábyrg umræða um ástæður þess að stjórnmálamenn virðast hafa allt of lítil tengsl við umbjóðendur sína og þann lærdóm hafa stjórnmálamenn m.a. dregið af úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þessi umræða hefur m.a. fjallað um grundvallarspurningar um lýðræði og leikreglur þess. Ég held að það sé ástæða til að við tökum þessa umræðu alvarlega. Það er mín skoðun að ástæða væri til að efna oftar til þjóðaratkvæðagreiðslu en nú er gert.
    Eins og fram kom í ræðu minni við 1. umr. þessa máls höfum við kvennalistakonur flutt á Alþingi tillögur um að þjóðin og íbúar einstakra sveitarfélaga eigi þess oftar kost að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu og allsherjaratkvæðagreiðslu innan sveitarfélaga. Auk þess tel ég að til séu mál sem eru svo stór og afdrifarík fyrir allan almenning að ekki sé forsvaranlegt annað en að spyrja þjóðina álits á þeim og um það geti allir sameinast, bæði þeir sem vilja fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum og einnig þeir sem aðeins vilja að þær séu hafðar um veigamestu álitamálin sem þjóðin stendur frammi fyrir.
    Ég vil taka heilshugar undir það sem segir í nýútkomnum bæklingi frá BSRB um EES. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Krafan um að þjóðin taki milliliðalaust afstöðu til þessa stórmáls kemur bæði frá fylgismönnum og andstæðingum samningsins. Þjóðaratkvæðagreiðsla leiðir til meiri og markvissari umræðu um kosti þess og galla fyrir Íslendinga að eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Röksemdir þarf að íhuga gaumgæfilegar og ætla má að þær komist betur til skila jafnt innan þings sem utan. Þjóðaratkvæðagreiðsla um Maastricht-samkomulagið í Danmörku og Frakklandi var til að örva umræður og skoðanaskipti og fyrir vikið eru viðkomandi þjóðir mun betur í stakk búnar til að taka afstöðu um eigið samfélag í nútíð og framtíð. Það er mikilvægt að niðurstaða í jafnafdrifaríku máli sé sannanlega byggð á yfirlýstum vilja meiri hluta þjóðarinnar. Með þjóðaratkvæðagreiðslu tekur þjóðin ábyrgð á niðurstöðunni á hvorn veginn sem hún verður. Fyrir bragðið verður aðlögun okkar að þróuninni í Evrópu auðveldari utan eða innan EES.

    Samningurinn um EES hefur í för með sér viðamiklar breytingar á fjölmörgum sviðum. Mjög deildar meiningar eru um hvort þær breytingar séu til góðs eða ills. Nánari umfjöllun er ein af forsendum þess að þjóðin verði sátt við niðurstöðuna, hver svo sem hún verður.``
    Það er ljóst að ekkert mælir gegn því tæknilega séð að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, heldur ekki ef litið er á stjórnskipun landsins. Til þess að svo megi verða þarf aðeins eitt: Að Alþingi samþykki það. Á það mun reyna á eftir.
    Það kom fram í máli allra þeirra er komu á fund hv. allshn. að slík atkvæðagreiðsla væri bæði lögleg og í samræmi við íslenska stjórnskipan. Það væri fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvort hún færi fram eða ekki. Hins vegar komu fram í þessum umræðum vangaveltur um það hvort íslensk stjórnskipunarhefð væri fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og í þetta hálmstrá hafa þremenningarnir sem snerust gegn þjóðaratkvæði í allshn. nú gripið. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í þessa umræðu en mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram vegna nál. hv. 1. minni hluta nefndarinnar.
    Miklar umræður hafa verið um lýðræði, bæði beint lýðræði og fulltrúalýðræði og þessar umræður eru að mörgu leyti mjög gagnlegar. Þær urðu m.a. tilefni töluverðrar umfjöllunar nefndarinnar um málið. Þar kom fram, sem ég sé nú að er ein helsta röksemd hv. 1. minni hluta, að kjörnir fulltrúar séu einungis ,,bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum``, eins og segir í nál. þeirra. Ég ætlast til þess, ekki síst út af þessum orðum, að það verði þá virt að þeir sem hafa þá bjargföstu sannfæringu að ganga eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga mál, fái að láta skoðanir sínar í ljós og að þeirra skoðanir séu virtar. Þetta er mín sannfæring og við erum sex talsins í allshn. sem höfum þessa sannfæringu. Ég hef einnig vonað að meiri hluti Alþingis hefði hana. Mér fyndist það eðlilegt og mér fyndist það í takt við þá umræðu sem hér er oft og tíðum. Ég hlýt að spyrja ef menn eiga aðeins að hlýða sannfæringu sinni og ekki þrýstingi frá kjósendum: Hvað með annan þrýsting? Er ekki allur þrýstingur óeðlilegur? Er ekki eðlilegast að hlusta eftir röddum umbjóðenda sinna en ekki að láta undan þrýstingi annarra gegn eigin sannfæringu? Sé okkur annt um lýðræðið er nauðsynlegt að taka málefnalega afstöðu og skoða rök málsins.
    Ég hlýt líka að spyrja hvort andstæðingar þjóðaratkvæðagreiðslu séu nokkuð hræddir við hana. Það mundi benda til þess að málstaður þeirra væri svo veikur að hann þyldi ekki skoðun almennings. Mér finnst afskaplega óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, að heyra þá röksemd að þessi samningur sé of flókinn til þess að heppilegt sé að bera hann undir þjóðina. Ég hafna auðvitað þessum röksemdum. Ég bendi á að einn helsti ráðgjafi hæstv. utanrrh. eða utanrrn., Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra, er sama sinnis. Hann sagði í erindi á fræðslu- og umræðufundi hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur þann 16. sept. sl., með leyfi forseta:
    ,,Ég get þó fullvissað ykkur um það að meginreglur þessa samnings eru tiltölulega skýrar og einfaldar. Þær skuldbindingar sem íslenska ríkið tekur á sig fyrir samþykkt samningsins og þau réttindi sem honum fylgja má leiða út frá tiltölulega fáum grundvallarreglum. Allt það pappírsflóð sem þar fylgir er að mestu leyti tæknileg útfærsla á þessum meginreglum, reglugerðir um framkvæmdaratriði.``
    Þetta er mat eins okkar allra fróðasta samningamanns og hann hefur oftar en einu sinni ítrekað það í samtölum, a.m.k. okkar á milli. Auk þessara skýru meginreglna hafa komið upp í umræðunni ákveðin vafaatriði í samningnum sem tiltölulega auðvelt er að einangra og um þetta eru einnig allir sammála. Þessi vafaatriði eru mikilsverð en þau eru ekki mörg og þau eru ekki ýkja flókin. Ég held að kannski mundi almenn umfjöllun frekar leiða til þess að við fengjum skýr svör en öll sú umræða sem verið hefur í einstökum nefndum þingsins og raunar einnig hér á Alþingi. Ég á þar ekki síst við það hvernig fiskveiðisamningurinn muni líta út. Ég er sannfærð um það að almenningur mundi ekki sætta sig við að greiða atkvæði um EES-samninginn án þess að fiskveiðisamningurinn lægi fyrir og öll ágreiningsefni um hann útkljáð, skýr og fullmótuð. En það gæti farið svo á Alþingi að meiri hluti þingsins léti það yfir sig ganga ef marka má þau svör sem maður hefur heyrt og þær umræður sem hér hafa farið fram.
    Enn vakna spurningar um ábyrg vinnubrögð fyrst þetta er möguleiki. Auðvitað vil ég ekki væna meiri hluta Alþingis um að gera þetta á meðan það er ekki sannað en því miður, það hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. utanrrh., að ekki sé tiltökumál að gera þetta. Hann talar ekki í umboði allra þingmanna, ekki einu sinni þeirra sem styðja ríkisstjórnina.
    Ég tel ekki ástæðu til að hafa lengra mál að þessu sinni og ítreka það að beiðnin um þjóðaratkvæðagreiðslu er lýðræðisleg krafa. Ég vænti þess að hún verði samþykkt og ég trúi því að hlýði menn samvisku sinni og sannfæringu, eins og þeim ber að gera, muni það verða.