Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 14:55:45 (1924)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. allshn. þingsins fyrir umfjöllun þessa máls. Eins og kom á daginn var henni auðvitað vel treystandi til að fara með þetta mál og skila því til þingsins aftur fljótt og vel þótt svo væri að heyra á einhverjum þingmönnum þegar málinu var vísað til nefndarinnar að efasemdir væru uppi um það og talið að málið væri betur komið hjá utanrmn. þingsins. Mér finnst að það hafi ekki komið á daginn og ég þakka allshn. fyrir góða umfjöllun um þetta mál.
    Þó að hér hafi verið flutt í sjálfu sér ágæt og merk ræða af frsm. 1. minni hluta verður ekki hjá því komist að fetta aðeins fingur út í ýmislegt sem þar kom fram.
    Það má segja að frsm. 1. minnihlutaálitsins hafi verið með hljóðfærið allt undir. Það fer ekki hjá því þegar slíkt er gert og menn reyna að spila flóknara spilverk en þeim er unnt að slegnar séu ákveðnar feilnótur. Því miður kemst ég hjá því að benda á ákveðnar feilnótur sem mér finnst hafa komið fram í máli Sólveigar Pétursdóttur, 6. þm. Reykv. og frsm. nál. 1. minni hluta.
    Ég hirði kannski ekki um rök eins og þau sem komu fram varðandi handritin heim. Hvort við hefðum kannski átt það á hættu að fá aldrei handritin heim til Íslands ef Danir hefðu verið spurðir að því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þeir vildu skila þessum handritum. Ég get bara sagt það að ég varð aldrei vör við það þegar ég var í Danmörku að handritin væru Dönum yfirleitt nokkurt mál né að þeir hefðu neinar sérstakar áhyggjur af þessum handritum, a.m.k. ekki almenningur í Danmörku. Það var líka talað um kosningarrétt kvenna í Sviss og að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði með einhverjum hætti komið í veg fyrir að konur í tiltekinni kantónu í Sviss fengju kosningarrétt. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekkert með þjóðaratkvæði og eðli þess að gera heldur einhverja tiltekna sérvisku og hugmyndir um kosningarrétt í þessari kantónu í Sviss.
    Síðan komu fram ýmis almenn pólitísk rök sem mig langar aðeins til að fjalla um. Það var í fyrsta lagi talað um fulltrúalýðræðið. Ef við færum með þetta mál í þjóðaratkvæði værum við þar með að breyta íslenskri stjórnskipan. Við værum að hverfa frá þingræði til beins lýðræðis. Ég fæ ekki séð að það sé mótsögn í þingræðishugmyndinni og beina lýðræðinu vegna þess að það getur í eðli sínu aldrei verið rangt að leita til þeirra sem hafa falið okkur valdið, til umbjóðenda okkar. Það getur í eðli sínu ekki verið rangt ef við metum málið þess eðlis að umbjóðendur okkar eigi að segja sitt álit á því. Og þegar þeir krefjast þess, eins og komið hefur fram m.a. í skoðanakönnunum að 75% þjóðarinnar vill fá að segja álit sitt á þessu máli, vill axla þá ábyrgð sem fylgir því að segja skoðun sína á þessu máli, getur það í eðli sínu aldrei verði rangt.
    Í öðru lagi var á það bent í framsöguræðu hv. 6. þm. Reykv. að ekki væri hefð fyrir að fara þessa leið. Ýmis rök voru þar tilfærð og m.a. talað um að hér hefði verið flutt tillaga um þjóðaratkvæði á sínum tíma þegar NATO-aðildin var til umfjöllunar, þegar samningurinn við Alusuisse var til umfjöllunar og EFTA-samningurinn. Þá hefði þessu verið hafnað og þar af leiðandi væri engin hefð fyrir því að fara með slíka samninga til þjóðarinnar og spyrja hana álits á málinu. Mér finnst þetta vera rökfærsla í hring, þ.e. við höfum aldrei gert eitthvað og gerum það þess vegna ekki nú. Ef við höfum ekki gert eitthvað þá gerum við það aldrei. Þannig er í raun og veru verið að segja: Það er ekki hægt að breyta hefðum. Ef hefð er komin til er ekki hægt að breyta henni.
    Auðvitað höfum við það á valdi okkar að breyta hefðum. Við erum alltaf að breyta hefðum og við getum alveg gert það í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Þar að auki er þetta ekki að öllu leyti rétt að ekki sé hefð fyrir því að fara með mál í þjóðaratkvæði. Það hefur sex sinnum verið þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi á þessari öld. Vissulega er því hefðin fyrir hendi þó hún hafi ekki verið iðkuð eftir að Ísland varð lýðveldi.
    Þá var á það bent að atkvæðagreiðsla af þessu tagi væri eingöngu ráðgefandi og eftir sem áður væru þingmenn bundnir af 48. gr. stjórnarskrár sem kveður á um að þeir eigi fylgja sannfæringu sinni í tilteknu máli en engum reglum frá kjósendum. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum sem hafa talað að ef við lítum svo á að við séum bundin eftir sem áður af sannfæringu okkar í málinu og þar af leiðandi sé ekkert mark takandi á þjóðaratkvæðagreiðslunni, þá erum við líka að segja það sama um hugsanlega aðild að EB ef það kemur upp. Þá erum við líka að segja: Það er ekki hægt að fara með það mál til þjóðarinnar þegar þar að kemur. Nú ætla ég að rifja það upp að ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi sagt fyrir síðustu þingkosningar að ef aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu kæmi upp yrði farið með það mál í þjóðaratkvæði og það lagt undir dóm þjóðarinnar. Ég man ekki betur. En eru þeir þá að segja að við ætlum ekkert mark að taka á þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu? Eða ætlum við að segja: Menn munu eftir sem áður fara eftir einhverri sannfæringu, ef þeir þá hafa hana, hér á þingi í því máli? Ég held að a.m.k. sjálfstæðismenn verði að svara þessu mjög skýrt hérna því að þetta er auðvitað eitt af því sem kemur inn í myndina. Þegar við tölum um EES er EB auðvitað inni í sjóndeildarhringnum að vissu marki þó að það verði sjálfstæð ákvörðun á sínum tíma hvort það eigi að tengjast því eða ekki.
    Þá vil ég einnig benda á það að þegar við tölum um sannfæringu og að þingmenn eigi að fylgja sannfæringu sinni og engu öðru, þá getur það líka verið sannfæring manns að þjóðin eigi að ráða. Það er líka sannfæring að þjóðin eigi að ráða í svona málum. Þingmenn sem eru þeirrar skoðunar að þjóðin hafi kannski valið rangt eiga þess alltaf úrkosta að sitja hjá á þinginu og láta þá ráða málinu sem eru sammála þjóðinni í þessu tiltekna máli. Við eigum kost á hjásetu. Það er ekki bara um það að ræða að greiða atkvæði með eða á móti. Hjáseta er alltaf kostur út af fyrir sig. Ef hún væri ekki afstaða væri hreinlega ekki boðið upp á hana í þingsköpum Alþingis þannig að menn eiga þess kost að láta þá greiða atkvæði um málið sem hafa sannfæringu í því. Hinir geta bara hreinlega setið hjá. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi.
    Í þessu sambandi langar mig líka til þess að nefna þá sem stóðu að tillögu stjórnarskrárnefndar 1982 á þinginu þar sem komið var með það ákvæði inn í stjórnarskrána að heimila ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Það voru hugmyndir stjórnarskrárnefndarinnar þá og ég held að allir þingflokkar hafi átt aðild að því á þeim tíma að setja ákvæði um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu inn í stjórnarskrána. Hvað hugsuðu menn sér þá þegar þeir lögðu þetta til á sínum tíma? Höfðu þeir ekki hugsað það mál til enda? Eru þeir að reyna að segja það? Eða eru þeir að segja að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla geti aldrei komið til? Hvað eru menn að segja með þeim rökfærslum sem hér hafa komið fram?
    Hv. 6. þm. Reykv. velti því nokkuð fyrir sér hvert fordæmið gæti leitt okkur, hvort það gæti leitt okkur út í það að við þyrftum að bera fiskveiðistefnuna undir þjóðina. Það væri líka stórmál sem varðaði þjóðina. Hún sagðist ekki sjá grundvallarmun á því máli og svo aftur samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefði enga sérstöðu sem hún kæmi auga á. Ég hlýt, eins og hv. 9. þm. Reykv., að mótmæla þessu. Auðvitað hefur þetta mál ákveðna sérstöðu. Þegar við erum að tala um fiskveiðistefnuna og þegar við erum að tala um landbúnaðarstefnuna erum við að tala um mál sem varðar okkur hér innan lands eingöngu. Það varðar ekki tengsl okkar við annað ríki. Mér finnst þegar tengsl við annað ríki kemur inn í myndina eins og gerðist með aðildinni að NATO, eins og gerðist með EFTA-samningnum og eins og gerist núna þá horfi málið öðruvísi við. Við erum að framselja ákveðið vald

með því að gangast undir milliríkjaleikreglur og með því að gerast aðilar að samtökum eins og NATO og að Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum að framselja ákveðið vald, þótt það sé á afmörkuðu sviði og menn geti fært að því rök að það sé takmarkað, þá er þetta engu að síður ákveðið framsal á valdi. Það er síðan hægt að færa rök fyrir því að það sé söguleg nauðsyn og það sé efnahagsleg nauðsyn og pólitísk nauðsyn. Það má auðvitað vel rökfæra þannig en framsal á valdi er það að vissu marki og það til annars ríkis. Það er það sem skiptir máli í þessu sambandi. Það gegnir allt öðru máli um fiskveiðistefnuna eða landbúnaðarstefnuna eða önnur slík mál.
    Þá komu líka fram þau rök að ef við samþykktum með þjóðaratkvæði að gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði þyrfti að taka samninginn af með sama hætti, þ.e. það þyrfti að bera það undir þjóðina hvort Íslendingar ættu að segja upp samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Á það var bent að samningurinn væri uppsegjanlegur með tólf mánaða fyrirvara og það væri í rauninni verið að taka það vald af stjórnvöldum að segja honum upp með þessum fyrirvara.
    En þá ætla ég líka að spyrja: Hverju segjum við upp ef við segjum samningnum upp? Við erum öðru fremur að segja upp stofnanaþætti samningsins. Við tökum ekki af allar þær lagabreytingar sem hér á að gera í tengslum við þennan samning. Þær verða ekki teknar aftur eins og hendi sé veifað. Það er þá fyrst og fremst stofnanaþáttur samningsins sem verður tekinn af. Við getum rétt ímyndað okkur það ef allt annað sem tengdist samningnum væri tekið af hvílík kollsteypa það væri fyrir íslenskt samfélag. Hver vill setja íslenskt samfélag í þá kollsteypu? Er ekki komið nóg af þeim?
    Við erum með því að gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að stíga skref inn í ákveðna þróun og það verður ekki stigið skref aftur út úr þeirri þróun með sama hætti. Það verður ekkert eins og það áður var. Það er því ekki hægt að ganga inn í þetta og ganga svo bara skref til baka eins og allt sé óbreytt. Við getum tekið dæmi af Frökkum. Frakkar voru að samþykkja Maastricht-samkomulagið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir geta aldrei stigið skref aftur út úr Maastricht eins og þeir stigu inn í Maastricht. Það er í eðli sínu ólíkt vegna þess að þetta er þróunarferli. Það hélt ég að öllum væri ljóst. Þarna eru hlutir að þróast og þetta breytist frá einum mánuði til annars. Ef við vildum segja upp samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði mundi væntanlega eitthvað annað leysa þann samning af hólmi, einhver annar samningur. Það væri þá hægt að bera þann samning, sem út úr því kæmi, undir þjóðina aftur. En það verður aldrei stigið út úr þessu eins og inn í það. Það væri kannski hægt að segja það um aðild NATO, gerist maður aðili að því bandalagi. Ef það er samþykkt í þjóðaratkvæði stígur maður út úr þeim aftur eins og ekkert sé. Það er ekki þróunarferli. Það er allt annars eðlis.
    Það hefur líka verið sagt að kjósendur hafi kosið um þetta í síðustu kosningum. En ég hlýt að spyrja: Hvernig kusu þeir um þetta? Á hvaða forsendum kusu þeir um þetta? Hér hefur verið vitnað í stefnuskrá Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar þar sem segir að þeir teldu rétt að gerast aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði ef frjáls markaðsaðgangur fengist með fisk. Nú vitum við að hann fékkst ekki, kannski sem betur fer þá fékkst ekki fríverslun með fisk. Ég er hrædd um að við værum ekki í góðri stöðu ef við hefðum haldið þeirri kröfu til haga að hafa algera fríverslun með fisk. Þá væri fiskur bara eins og hver önnur vörutegund sem við gætum ekki takmarkað með neinum hætti útflutning á eða annað síkt. Við þessar aðstæður, sem nú eru, held ég að það sé kannski eins gott að ekki fékkst fullkomin fríverslun með fisk.
    Ég spyr: Hvernig kusu kjósendur um þetta mál? Ég hef verið að lesa greinar um málið þar sem menn hafa verið með röksemdafærslu, bæði grein eftir hv. þm. Björn Bjarnason og grein eftir Þröst Ólafsson, aðstoðarmann utanrrh. Björn Bjarnason heldur því fram í sínum greinum að allir flokkar nema Kvennalistinn hafi verið fylgjandi samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Þar af leiðandi hafi þeir sem ekki voru fylgjandi honum væntanlega átt að kjósa Kvennalistann.
    Þröstur Ólafsson heldur því hins vegar fram að fyrir síðustu kosningar hafi stjórnarflokkarnir lýst yfir stuðningi við Evrópska efnahagssvæðið en ekki Framsfl. og Alþb. Ef þessir tveir menn, sem lifa og hrærast í stjórnmálum, skilja ekki eða hafa ekki skýra mynd af því hvað flokkarnir buðu upp á fyrir síðustu kosningar hvernig eiga þá kjósendur að hafa það? Ég hlýt að spyrja þeirrar spurningar hér. Um hvað kusu kjósendur og hvernig?
    Ég sá það í nál. 1. minni hluta að þar er fjallað um að það sé með öllu ónauðsynlegt að stofna til pólitískra átaka um þetta mál og síðan segir að þau muni þar að auki snúast að verulegum hluta um annað en EES. Það er bara þannig stundum að pólitísk átök verða ekkert umflúin hvort sem við aðhöfumst eitthvað eða ekki. Það held ég að öllum, sem hafa tekið þátt í stjórnmálum, ætti að vera ljóst. Stundum verða þau ekki umflúin ef stórmál er á ferðinni. Það er ekki þar með sagt að þó að við förum ekki með mál í þjóðaratkvæði verði ekki pólitísk átök áfram um málið. Það er nefnilega vel líklegt að stór hluti þjóðarinnar telji sig hafa verið snuðaðan í þessu máli, að þessu máli hefði verið þröngvað upp á þjóðina. Þjóðin hefði aldrei fengið að gera upp hug sinn varðandi málið og þar af leiðandi erum við kannski bara að lengja í þessum pólitísku átökum sem verða ekki umflúin.
    Hér kom upp einn nefndarmanna í allshn., hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, 7. þm. Norðurl. e., og taldi að það væri sérkennilegt hjá stjórnarandstöðuþingmönnum að vilja bera þetta mál undir þjóðina eins flókið og það væri. Hann sagði að einn þingmaður hefði komist að niðurstöðu í þessu máli eftir tveggja ára skoðun á því. Hann nefndi engin nöfn en eins og við segjum á mínu heimili þá skil ég fyrr en skellur í skoltum og skögultönnum og vissi að þessu var beint til þeirrar sem hér stendur. Þá hlýt ég að varpa

fram þeirri spurningu: Hvers konar málafylgjumenn eru hv. þm. stjórnarliðsins? Ég kom að þessu máli fyrir tveimur árum með opinn huga, vildi skoða allar hliðar á því. Það hljóta að vera slappir málafylgjumenn ef það tekur þá tvö ár að koma rökum inn hjá manneskju eins og mér sem á að vera sæmilega greind, svona í meðallagi greind. Það má kannski segja að það sé ástæða fyrir stjórnarþingmenn til þess að óttast dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst málafylgjan er ekki meiri en þetta.
    Ég veit ekki hvort ég á að hafa þessi orð nokkuð fleiri. Þegar ég mælti fyrir þessari tillögu á sínum tíma færði ég fram helstu rökin fyrir því af hverju þjóðin á að fá að kjósa um þetta mál. Mér sýnast skoðanakannanir benda til þess að þjóðin vilji fá að kjósa um þetta mál, hún sé tilbúin til að axla þá ábyrgð sem þessu fylgir og hún sé tilbúin til að setja sig inn í málið. Það getur vel verið að hún sé ekki búin að því núna enda kannski ekki ástæða til fyrir hana fyrr en hún veit hvort hún á að segja álit sitt á málinu eða ekki. Það er bara þannig með okkur flest að við gerum ekki upp hug okkar fyrr en að því kemur að við þurfum að segja af eða á enda engin ástæða til að gera það í rauninni fyrr. Ég treysti þessari þjóð mætavel til þess að taka á þessu máli og gera það sem er rétt og skynsamlegt.