Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 15:44:17 (1930)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að ítreka þá spurningu sem hv. 8. þm. Reykn. lagði fyrir ráðherrann áðan um það hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að þjóðin fái að hafa síðasta orðið í þessu mikilvæga máli. Satt að segja finnst mér ráðherrann ekki geta verið þekktur fyrir annað en að svara spurningu af þessu tagi í framhaldi af þeim ummælum sem hann hafði um þessa tillögu áðan. Ég ítreka því þessa spurningu og skora á hæstv. ráðherra að svara henni um leið og ég segi þetta til að mótmæla ræðu hans áðan.
    Í fyrsta lagi er það rangt að í samningnum felist engar skuldbindingar umfram eitt ár vegna þess að á grundvelli samningsins og þeirra laga sem honum kunna að fylgja geta menn gert bindandi samninga af ýmsu tagi og tekið ýmsar ákvarðanir sem hafa áhrif til margra ára, ákvarðanir sem verða ekki afturkallaðar með því að segja samningnum upp. Þetta er þess vegna útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra og ég skora á hann að kalla þessi ummæli til baka. Síðan vitnar hann til annarra alþjóðasamninga og lætur að því liggja að það sé erfitt að segja þeim upp og að samningurinn sé afbrigðilega hagstæður af því að aðrir alþjóðasamningar séu bundnir. Að sjálfsögðu hefur Alþingi Íslendinga fullt ,,súverenítet``, fullveldi, til að segja upp alþjóðasamningum. Sá samningur sem hæstv. utanrrh. er að mæla fyrir hér er því ekkert betri en aðrir samningar að þessu leyti. Þetta er rökleysa.
    Með því að segja: Þjóðaratkvæðagreiðsla um EES --- eru menn þá að segja þjóðaratkvæði um alla alþjóðlega samninga? Mitt svar er nei. Ástæðan fyrir því að menn krefjast þjóðaratkvæðis um EES er fyrst og fremst sú að sá samningur er viðamesti alþjóðasamningur sem gerður hefur verið á vegum íslenskra stjórnvalda í sögu lýðveldisins. Þess vegna er sérstök ástæða til að leggja samninginn fyrir dóm þjóðarinnar.