Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 15:50:16 (1933)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt þingsköpum er það alveg skýrt að ráðherra ber að svara hverju andsvari að því loknu ef hann á annað borð ætlar að svara því og veita þeim þingmanni sem andsvarið hefur veitt rétt til þess að segja álit sitt á svarinu. Hæstv. utanrrh. braut þessa reglu áðan með því að bíða með andsvar sitt við spurningu minni þar til aðrir þingmenn voru búnir að tala. Ég hafði því engan rétt til þess samkvæmt þingsköpum að fjalla um mál hans. Það er auðvitað mjög slæmt sérstaklega þegar um er að ræða slíkt lykilatriði hvort íslenska þjóðin fær að segja álit sitt á EES-samningnum og afstöðu ráðherrans til þess.
    Ég varpaði fram spurningu til hæstv. utanrrh. um það hvort hann væri sammála því eða ekki að íslenska þjóðin hefði síðasta orðið um EES-samninginn áður en hann tæki gildi. Ef ráðherrann er sammála því að íslenska þjóðin eigi að hafa síðasta orðið reikna ég með að hægt sé að leggja vinnu í það hér í þingsalnum að ná samkomulagi um að gera það á þann hátt að bæði ráðherrann og þeir sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu geti unað niðurstöðunni. Ég benti á leið í þeim efnum. Hún er á þann veg að bætt verði nýrri grein við frv. um EES-samninginn sem hljóði svo: Að lokinni afgreiðslu Alþingis fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn og samningurinn taki gildi sé hann samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
    Þetta er slíkt lykilatriði að ef hæstv. ráðherra vill láta taka sig alvarlega og þá ræðu sem hann flutti áðan verður hann að svara spurningum af þessu tagi. Ef hann er hins vegar ósammála því í grundvallaratriðum að þjóðin fái að segja álit sitt á samningnum áður en hann tekur gildi falla öll hans rök í ræðunni áðan dauð og ómerk.
    Mér þykir leitt, virðulegi forseti, að ráðherrann skyldi kjósa að víkja að þessu án þess að ég hefði rétt til að fjalla um það. Ég vona að í framtíðinni virði ráðherrann þær reglur um andsvör sem eru í þingsköpum en mun að öðru leyti fylgja þessu eftir í almennu umræðunum á eftir.