Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 15:55:15 (1935)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Í umræðum um þingsköp ætla ég ekki að víkja að þeim furðulega efnislega útúrsnúningi sem kom fram hjá hæstv. utanrrh.
    Það er merkilegt að hæstv. utanrrh. skuli telja málstað sinn svo veikan í þessari umræðu að hann þurfi að grípa til útúrsnúninga af þessu tagi. Þeim verður hins vegar svarað í umræðunni hér undir almennum reglum umræðunnar. Að ég hafi verið að leggja til stjórnarskrárbreytingu er gjörsamlega út í hött. Þingskaparæða ráðherrans áðan lýsir slíkri fáheyrðri vankunnáttu að undrum sætir því það er mjög algengt að í frv. sé gildistaka þeirra skilyrt með ýmsum hætti og tengd öðru en atkvæðagreiðslunni sjálfri á Alþingi. Um þetta getum við fjallað í umræðunum á eftir.
    Eitt hefur þó komið í ljós hér á síðustu mínútum og það er að utanrrh. telur málstað sinn í andófinu gegn tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu svo veikan að hann hefur þau einu vopn í sínu búri að vera með ómerkilega útúrsnúninga og hártoganir.