Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 15:56:33 (1936)


     Frsm. 1. minni hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir ):
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað langar mig til að koma með nokkrar athugasemdir.
    Í allshn. beindist meðferð málsins fyrst og fremst að stjórnskipulegum þætti þess. Samkvæmt því leituðum við álits sérfræðinga í íslenskum stjórnskipunarrétti. Allir voru þeir sammála um að íslensk stjórnskipun byggði á fulltrúalýðræði, lýðræði sem væri frá fólkinu komið og ef fara ætti út í þjóðaratkvæðagreiðslu væri verið að breyta íslenskri stjórnskipun. Slíkt þyrfti að sjálfsögðu mikillar umhugsunar og athugunar við. En það mótmælir því enginn að Alþingi hafi vald til að taka slíka ákvörðun í einstöku máli enda er þessi þáltill. til síðari umræðu í dag.
    Ég bendi hv. þm. Svavari Gestssyni sérstaklega á þetta, hann er að vísu ekki staddur hér, og að það er ekki verið að loka neinum dyrum.
    Þá má einnig benda á að það hefur einkum verið Alþb. sem hefur haft áhuga á breytingum í þá veru að koma á þjóðaratkvæðagreiðslum í einstökum málum. Reyndar er það nokkuð sérstakt að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Ragnar Arnalds, sem báðir hafa átt sæti í svonefndri stjórnarskrárnefnd í mörg ár, skuli ekki hafa verið virkari í tillögugerð fyrst þeir hafa svona mikinn áhuga á þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Íslenska stjórnarskráin byggir einnig á fulltrúalýðræði og þar er ekki gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum almennt. Það er einungis í 2. málsgr. 79. gr. sem beinlínis er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. ef Alþingi samþykkir breytingu á kirkjuskipun ríkisins. Ákvæði 11. gr. um að forseti Íslends verði leystur frá störfum af hálfu Alþingis og 26. gr. um það ef forseti neitar að staðfesta lagafrumvarp sem Alþingi hefur samþykkt eru sértilvik sem ekki er beinlínis hægt að telja með greinum um þjóðaratkvæði. Þetta var og samdóma álit þeirra sérfræðinga í stjórnskipunarrétti sem mættu á fund allshn.
    Það er því bæði eðlileg og lýðræðisleg ákvörðun í samræmi við íslenska stjórnskipun að alþingismenn taki sjálfir ákvörðun um EES-samninginn án þess að leita til þjóðaratkvæðis á undan.
    Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur lýsti því m.a. fyrir nefndinni í hvaða tilvikum þjóðaratkvæðagreiðslur gætu átt sér stað í öðrum löndum sem byggju við fulltrúalýðræði:
    1. Þegar um er að ræða grundvallarmál. Dæmi: Danir 1950 um stjórnarskrárbreytingu. Væntanlega eru engin mál jafnmikil grundvallarmál og breyting á stjórnarskrá en það þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar hér á landi.
    2. Þau tilvik þar sem um er að ræða valdaágreining þings og forseta. Dæmi: Frakkland. Þá hafði þjóðaratkvæðagreiðsla það hlutverk að styrkja forseta í spennu gagnvart þinginu. Hér á landi væri forseti ekki með sömu aðstöðu og í Frakklandi og ætti þetta því ekki við hér.
    3. Tilvik þar sem flokkakerfið eða þingið getur ekki leyst mál sjálft t.d. vegna ágreinings í flokkum. Dæmi: Svíþjóð á 8. áratugnum, um kjarnorku- og umhverfismál. Jafnan væri þetta lausn úr óþægilegum málum.
    4. Í fylkjum Bandaríkjanna hafa kjósendur frumkvæði að löggjöf ef nægilega margir skrifa undir það. Dæmi: Kalifornía, t.d. vegna lækkunar skatta.
    5. Tilvik sem er lítið beitt en það er þegar upp koma mál sem ekkert hafa verið rædd í kosningum.
    Ekkert þessara tilvika eiga við hér.
    Vegna athugasemda hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar vísa ég aftur til nefndarálits 1. minni hluta um að EES-samninginn bar hátt í síðustu kosningum. Vegna þessara orða þykir mér rétt að benda á ályktun 29. landsfundar Sjálfstfl. frá árinu 1991 um utanríkismál. Þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Sjálfstæðismenn telja að Íslendingar eigi samleið með öðrum EFTA-ríkjum um þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði að því tilskildu að samningar takist um hindrunarlaus viðskipti með sjávarafurðir. Ef viðhlítandi samningar um EES-svæðið takast ekki leggja sjálfstæðismenn áherslu á að Íslendingar leitist við að ná fram þessum markmiðum eftir öðrum leiðum. Íslendingar eiga ekki fremur en aðrar Evrópuþjóðir að útiloka fyrir fram að til aðildar geti komið að Evrópubandalaginu. Viðfangsefnið er að tryggja þjóðinni efnahagslega farsæld í framtíðinni og sjá til þess að sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur landsins skuli ávallt vera tryggður ásamt fullri stjórn á auðlindum landsins.``
    Í kaflanum um utanríkismál og utanríkisviðskipti í hvítbók ríkisstjórnarinnar segir enn fremur á bls. 39:
    ,,Ríkisstjórnin mun reyna til þrautar að ná samningum um myndun hins Evrópska efnahagssvæðis EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins.``
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. frá 30. apríl 1991 er því lýst í 16 liðum hvaða aðgerðum stjórnin ætlar að beita til þess að ná markmiðum sínum. Í 15. lið segir:
    ,,Með því að semja um þátttöku Íslendinga í Evrópska efnahagssvæðinu, EES, til þess að tryggja hindrunarlausan aðgang sjávarafurða að Evrópumörkuðum. Ekki kemur til greina að gefa eftir forræði í íslenskri fiskveiðilögsögu í skiptum fyrir aðgang að mörkuðum.``

    Í fjórða lagi samþykktu þingflokkar Sjálfstfl. og Alþfl. framlagningu frv. um EES-samninginn athugasemdalaust.
    Rétt er einnig að taka það fram að innganga í Evrópubandalagið er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar enda hefur hæstv. forsrh. margoft lýst því yfir. Ef í framtíðinni kæmi hins vegar í ljós að slíkt mundi þjóna hagsmunum Íslendinga yrði væntanlega að huga að stjórnarskrárbreytingum e.t.v. með því að tryggja aukinn meiri hluta á þingi og fleira gæti komið þar til athugunar.
    Vegna orða hv. þingkonu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur áðan vil ég gjarnan gera grein fyrir þeim tillögum að málum sem fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu sex sinnum á þessari öld, eins og hún sagði. Árið 1905 kom fram tillaga um aðflutningsbann gegn áfengi, 1914 frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá, 1915 till. til þál. um atkvæðagreiðslu um þegnskylduvinnu, 1933 till. til þál. um þjóðaratkvæði um aðflutningsbann á áfengum drykkjum og 1944 lýðveldisstjórnarskráin.
    Hv. þingkona talaði líka um hefðir og að hefð væri hægt að breyta. Auðvitað er það hægt með vilja Alþingis. Vegna þessa vil ég benda á að prófessor Sigurður Líndal taldi að það hefði einmitt skapast ákveðin hefð vegna þess að Alþingi hefur aldrei fallist á að stofna til þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál síðustu áratugina. Það er líka hefð. Ég vona og trúi því reyndar að hann hafi kennt mér þokkalega lögfræði á sínum tíma.
    Varðandi NATO er það að mínu mati misskilningur hjá hv. þingkonu að auðveldara sé að segja upp þeim samningi en EES-samningnum því þar er aðallega um viðskiptahagsmuni að ræða en í NATO er um að ræða varnarkeðju og öryggi annarra þjóða.
    Í nefndarálitum hv. 2. og 3. minni hluta allshn. er vikið að þjóðaratkvæðagreiðslum í Evrópu. Þar var verið að greiða atkvæði um Maastricht-samninginn sem er allt öðruvísi en EES-samningurinn eins og allir vita því að hann er að mestu viðskiptasamningur þótt vissulega sé hann stór í sniðum. Í Maastricht-samningnum er hins vegar um að ræða ákveðið framsal á fullveldi sem kallar m.a. á stjórnarskrárbreytingar í viðkomandi ríkjum þar sem ætlunin er að móta sameiginlega pólitíska stefnu í fjölmörgum málaflokkum. Þessi samningur innan EB-ríkjanna er alls ekki á dagskrá hér heldur samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði og ekkert EFTA-landanna utan Sviss ætlar eða hefur látið fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn.
    Í nefndarálitum 2. og 3. minni hluta er einnig vikið að því að samþykkt þessarar tillögu mundi leiða til ítarlegrar kynningar á efni samningsins. Því er til að svara að EES-samningurinn hefur hlotið meiri og almennari kynningu en nokkur alþjóðasamningur síðan lýðveldið var stofnað. Ég er þó sammála því að aukin fræðsla sé til góðs en henni hefur ekkert verið hætt, m.a. er í undirbúningi þáttaröð á vegum Ríkissjónvarpsins um þetta efni. Þar að auki er hvers kyns fræðsluefni um samninginn auðfengið og aðgengilegt.
    Þá hefur verið talað um að það yrðu pólitísk átök ef ákvörðun yrði tekin um þjóðaratkvæðagreiðslu. Við skulum ekkert vera að blekkja hvert annað hér á hinu háa Alþingi né heldur þjóðina með því að halda öðru fram. Dettur mönnum í hug að fulltrúar stjórnmálaflokkanna munu sitja með hendur í skauti ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur? Auðvitað ekki. Það munu allir reyna að sannfæra kjósendur um sinn málstað nema að einhver flokkanna eigi í erfiðleikum með að finna sameiginlega stefnu.
    Þá er líka ljóst að ríkisstjórnin hefur blandast inn í þetta mál og þær efnahagsþrengingar sem nú eru í þjóðarbúskapnum. Ég held að það sé engin tilviljun að stjórnarandstaðan sameinast um þetta mál. Hins vegar er ekkert óeðlilegt að önnur málefni blandist inn í þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn en það getur líka verið varasamt.
    Nýlega birtist viðtal við Bent A. Koch, hinn danska ritstjóra og Íslandsvin í DV. Hann segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þjóðaratkvæðagreiðslur eru mjög vafasamt lýðræðislegt verkfæri. Ég vara yfirleitt við þeim, líka á Íslandi. Það er vegna þess að maður veit aldrei nákvæmlega um hvað fólk er að greiða atkvæði. Á Írlandi var mest fjaðrafok í kringum fóstureyðingalöggjöfina. Í Frakklandi tóku menn afstöðu til Mitterand forseta og í Danmörku var mikil óánægja með stjórnmálamenn.``
    Enn fremur segir hann:
    ,,Ég get alveg hugsað mér að þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi gæti snúist upp í atkvæðagreiðslu með eða á móti ríkisstjórninni. Það er erfitt að túlka niðurstöðurnar, hverju menn neita og hverjum menn játa í hverju landi fyrir sig.``
    Svo mörg voru þau orð en þetta var hans mat.
    Auðvitað verður því ekki haldið fram að hin íslenska þjóð hafi ekki næga þekkingu til að taka afstöðu til samningsins. Slíkt fæli í sér vanmat á kjósendum. Það er bara ekki til umræðu hér né var það í meðferð allshn. á málinu. Það sem kom út úr þeirri vinnu var sú staðreynd að stjórnskipulega séð ætti þjóðaratkvæðagreiðsla ekki við hér á landi og ef menn vildu breyta því kallaði slíkt á nákvæma yfirvegun og umræður en ekki tekin slík ákvörðun hér og nú í tengslum við þetta eina mál.
    Þá hefur verið minnst á það að atriði að EES-samningurinn bindi ekki Ísland nema 12 mánuði í senn. Menn hafa samt áhyggjur af réttaráhrifum þess t.d. varðandi samninginn um eignarrétt og atvinnuleyfi útlendinga. Það er auðvitað hægt að breyta lögum aftur í kjölfarið t.d. lögum um útlendinga og hugsanlegt að setja einhvers konar eignarnámsákvæði o.s.frv. Það yrði að sjálfsögðu í höndum Alþingis sem hefur löggjafarvaldið. Þess má einnig geta að nú þegar hefur verið unnið frv. sem felur í sér mun meiri takmarkanir á kaupum á fasteignum og jörðum en þegar eru fyrir hendi í íslenskum lögum.
    Í nefndaráliti hv. 3. minni hluta eru enn fremur nokkur atriði sem ég tel rétt að gera athugasemdir við. Þar segir m.a.:
    ,,Sá sem hefur trú á málstað sínum og kynnir hann rækilega er að sjálfsögðu óhræddur að leggja samvisku sína og málstað undir dóm þjóðarinnar.``
    Að sjálfsögðu verður tekið undir þessi orð. En þessi dómur verður ekki felldur í neinni þjóðaratkvæðagreiðslu heldur við næstu alþingiskosningar. Einnig segir í álitinu:
    ,,Ef svo illa tækist til að málið leysist ekki með samþykkt tillögunnar yrði vandinn mikill. Deilur um óhjákvæmilegar stjórnarskrárbreytingar mundu þá magnast og er vandséð hvernig þær yrðu leystar.``
    Í fyrsta lagi er ljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla sker ekki úr um þörf á stjórnarskrárbreytingu.
    Í öðru lagi hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna ættu deilurnar að magnast og hverjir ættu að deila? Í þessu sambandi er rétt að minna á að hin sérskipaða stjórnarskrárnefnd hefur þegar afgreitt þessi tvö frumvörp stjórnarandstöðunnar um breytingu á stjórnarskrá út úr nefnd. Var það gert í samkomulagi enda þótt álit manna verði ekki hið sama. Ég tel enga ástæðu til þess að ætla að þau mál hljóti ekki hefðbundna þinglega meðferð og varla fara flm. þeirra að tefja málið á þinginu. Þeir hafa þvert á móti lýst því yfir að þeir hyggja á breytingar á frumvarpstexta svo að túlkun hans valdi ekki þeim vandkvæðum að menn telji þar allt of langt gengið.
    Þetta orðalag ,,óhjákvæmilegar stjórnarskrárbreytingar`` virðist fela það í sér að þessir tveir nefndarmenn hafi þegar gert upp hug sinn og því skipti í raun og veru ekki máli þótt þjóðin samþykki samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu, það yrði að rjúfa þing og efna til kosninga. Í lok nefndarálitsins segir enn fremur:
    ,,Ástæðulaust er því að væna þingmenn um kjarkleysi. Það hittir þá sjálfa fyrir sem þannig tala.``
    Þetta finnast mér nokkuð furðuleg ummæli og ég kannast ekkert við að slíkt hafi nokkurn tíma borið á góma í allshn. varðandi þessa þáltill. og afstöðu manna til hennar þar. Vonandi hafa allir hv. þm. þann kjark til að bera að taka þær ákvarðanir sem munu, ef til lengri tíma er litið, reynast farsælastar fyrir land og þjóð.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja það, að þó vissulega sé erfitt að taka ekki tillit til þeirra undirskriftalista sem borist hafa til Alþingis er það engu að síður skoðun okkar þriggja þingmanna sem undirritum 1. minnihlutaálitið að ákvörðun okkar sé rétt. Hún er ekki einungis byggð á skoðun fræðimanna heldur ekki síst á okkar eigin sannfæringu um að ekki sé rétt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn, bæði vegna hinnar íslensku stjórnskipunar og ekki síst með tilliti til þess hvernig kringumstæður eru nú í þjóðarbúskapnum. Ég vil leyfa mér að rifja upp orð leiðarahöfundar Morgunblaðsins í gær er hann sagði:
    ,,En íslensk þjóð hefur ríkari þörf fyrir flest annað á líðandi stundu en víðfeðm átök og sundurlyndi sem þjóðaratkvæði af þessu tagi getur stefnt okkur í. Sundurlyndið er oftar en ekki skæðasti óvinur lítillar þjóðar.``