Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 16:16:20 (1939)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla einnig að taka það fram að þeir sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar bentu á að það væri fyrst og fremst pólitísk ákvörðun að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tengi það því að við verðum að hafa þann kjark sem þarf til að taka slíka ákvörðun. Auk þess var umræðan um það hvort þetta mundi valda breytingum á stjórnskipun okkar. Sú umræða er fullgild og umhugsunarefnið var: Mun þetta leiða til þess eða ekki? Sjálf er ég hlynnt fleiri þjóðaratkvæðagreiðslum eins og fram kom í máli mínu áður. Ég mundi fagna slíkum breytingum en að sjálfsögðu er ekkert öruggt að þessi tillaga leiði til þess að þjóðaratkvæðagreiðslum fjölgi.
    Í þriðja lagi er mér ekki fullljóst hvernig það er hugsað ef hætta er á því að þjóðaratkvæðagreiðslur snúist um fleiri en eitt mál þar sem aðeins er spurt einnar skýrrar spurningar. Hvernig stenst það ef rökin í málinu eru þau að fjallað hafi verið um EES í síðustu kosningum? Það hlýtur væntanlega að hafa verið fjallað um fleiri spurningar með sömu röksemd. Eða að dómur verði kveðinn upp í næstu kosningum? Ef kosningar um eina spurningu fela í sér að kosið sé um fleira hljóta venjulegar kosningar á fjögurra ára fresti að gera það líka. Ég sé því ekki annað en önnur röksemdin útiloki hina.