Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 16:23:26 (1945)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mér þykir þeir sem vilja fella þá tillögu sem hér er til umræðu grípa vopnin á ýmsum stöðum og ég tel þau ekki verða merkileg í höndunum á þeim. Það hefur verið einkenni á málflutningnum að menn eru að þvæla þessu máli fram og til baka og reyna að tala um það eins og eitthvert venjulegt mál sem sé jafnvel afgreitt daglega á þinginu. Það er auðvitað af og frá. Við erum að tala um sjálfstæðismál þjóðarinnar. Við erum ekki að tala um búvörusamning eða það hvernig við stjórnum fiskveiðum í landinu. Við erum ekki að tala um mál sem snýr bara að íbúunum hér. Við erum að tala um mál sem snýr að öðrum þjóðum. Við erum að tala um sjálfstæði landsins.
    Ég held að þess vegna sé út í hött að ræða málið með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Ég tel það reyndar óvirðingu við þjóðina að kalla tillöguna skoðanakönnun vegna þess að verið er að tala um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Skoðanakönnun er athugun sem fer fram. Þá eru fáir einstaklingar spurðir um eitthvert tiltekið málefni. Þjóðaratkvæðagreiðsla er aftur á móti atkvæðagreiðsla þar sem allir þegnar þjóðfélagsins fá tækifæri til að taka þátt.
    Ég tel einsýnt að Alþingi Íslendinga hljóti að skoða vandlega niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu þó það sé ekki lögformlega bundið af niðurstöðunni. En mér er sem ég sjái Alþingi Íslendinga ganga í berhögg við vilja verulegs meiri hluta þjóðarinnar sem kæmi fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel þess vegna að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi fullkomlega þann tilgang sem menn ætla henni þó niðurstaðan sé ekki fyrir fram ákveðin lögformlega sem lokapunktur í málinu.
    Í mínum huga er ekki efi um það að þjóðin á að fá að kveða upp þennan dóm. Með þeim samningi sem við erum að tala um er verið að framselja ákvörðunarrétt þjóðarinnar í mörgum viðamiklum málum. Það hefur verið rætt um þessi mál í þinginu mjög lengi og við getum ekki endurtekið þau rök í þessari umræðu sem nú fer fram. En það er óhætt að minna á að ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA skerða framkvæmdarvaldið. Dómsvaldið verður framselt til EFTA-dómstólsins. Alþingi Íslendinga skal samþykkja í einu lagi öll lög og reglur EB sem gilda á þeim sviðum sem samningurinn nær til og fær ekki breytt einum einasta stafkrók í sambandi við þessi mál.
    EB tókst að komast í gegnum allt samningaferlið án þess að gera eina einustu tilslökun. EB tekur ekki upp eina einustu reglu eða lög sem hafa gilt á EFTA-svæðinu en eru ekki í gildi hjá EB. Segir það mönnum ekki einhverja sögu um áhrif þeirra í þessu samstarfi í framtíðinni að allar samningaviðræðurnar snerust um tímabundnar undanþágur og smávægilegar tilslakanir sem í okkar tilfelli snúast um fisk en virðast haldlitlar þegar til framtíðarinnar er litið?
    Það er ekki nóg, heldur á að gefa ráðherrum á hverjum tíma heimildir til að staðfesta nýjar reglugerðir sem koma frá EB. Og þær munu koma tugum og hundruðum saman frá Brussel. Flæðilínan á að liggja þaðan og beint inn á borð ráðherranna. Þar verður tekin ákvörðun um hvaða reglur eigi að gilda á hverju sviði. Það hefur komið fram í umræðum um þingmál í nefndum þingsins að það er ekki vilji til að skapa öðruvísi farveg fyrir reglugerðarbreytingarnar. Nýjar reglugerðir sem koma frá Brussel eiga að koma inn á borð ráðherra og fá þar staðfestingu.
    Hvert er svo líklegasta framhaldið af þessu öllu saman? Það getur auðvitað hver hugsað um og gerir hver og einn. En mín skoðun er sú að framhaldið verði einfaldlega þannig að þegar allir aðilar hafa staðfest þátttökuna í EES-samningnum muni fljótlega, vegna þess að þjóðirnar sem með okkur eru í þessu samstarfi eru búnar að biðja um að fá aðild að EB, verða farið að ýta á eftir þeim umsóknum. Og að svar EB við þeim þrýstingi verði að óska eftir því að þjóðirnar komi í einu lagi í viðræður um aðild að EB. Skyldu þá ekki einhverjir fleiri fara að tala um að það væri rétt að vera með í þeim umræðum? Ég efast ekki um að þá munu margir rísa upp hér á landi og segja: Nú verðum við að vera með því annars erum við að einangra okkur pólitískt. Við þurfum á krafti þeirra félaga okkar að halda sem eru í EFTA til að ná fram okkar markmiðum í samningunum.
    Það verða gífurlegar breytingar á réttarstöðu einstaklinga í landinu við þennan samning. Það eru að mínu mati ekki sístu rökin fyrir því að það eigi að spyrja þjóðina. Við vitum að það er verið að innleiða hér allt aðra stöðu en hefur verið gagnvart atvinnu t.d. Og orðið Íslendingur mun auðvitað taka merkingarbreytingu í sjálfu sér. Það væri kannski eðlilegra að lýsa réttarstöðunni með því að segja að menn séu Evrópubúar á hinum íslenska hluta hins Evrópska efnahagssvæðis vegna þess að réttarstaða manna á að vera algerlega jöfn.
    Ég held að íslenska þjóðin hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir þessu og því þurfi --- og það er kannski jákvæðast við að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu --- að fá enn þá meiri umræðu með þjóðinni en orðin er.
    Því hefur verið borið við að þessi samningur sé uppsegjanlegur með tólf mánaða fyrirvara og þá getum við bara kvatt þetta samkomulag. Ég tel það út í hött og tel að það hafi verið rökstutt mjög vel í umræðunum. En því til viðbótar vil ég segja að það eru efasemdir um að fríverslunarsamningar okkar við Efnahagsbandalagið og bókun 6 muni standa eftir að við værum búin að segja samningnum upp. Hvar værum við þá? Við værum komin á byrjunarreit í samningum við EB um viðskipti. Við værum komnir aftur að árinu 1973 og þyrftum að byrja algerlega upp á nýtt með þessa samninga.
    Ég tel þetta svo viðamikla stefnumörkun sem hér er á ferðinni að þjóðin eigi að fá að segja sitt álit. Stefnan hefur verið tekin í svo mörgum málum sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu og þessum samningum. Ég tel að stefnan liggi raunverulega til samstarfs um að ganga í EB. Eða hvernig stendur á því að íslensk stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að mynda tollmúr með EB? Það liggja fyrir frumvörp í þinginu þar sem gert er ráð fyrir að 7,5% tollur verði á vörum sem koma annars staðar að inn í landið en frá Evrópska efnahagssvæðinu. Halda menn virkilega að ef á stað fer einhvers konar efnahagsstríð á milli stórveldanna verði ekki litið á það að Íslendingar taka þátt í að mynda tollmúr með Evrópubandalaginu? Eru menn vissir um að Íslendingar lendi ekki öfugu megin? Eru menn vissir um að Bandaríkjamenn t.d. muni sleppa Íslendingum þegar Íslendingar hafa tekið þá ákvörðun að leggja hærri tolla á vörur frá Bandaríkjunum en frá Evrópu? Ég er ekkert viss um það. Ég tel ekki mikla framtíð í því kaupfélagi sem hér er verið að tala um að fara í samstarf við.
    Frá aldaöðli hafa íbúar jarðarinnar barist um bestu landsvæðin og friður hefur sjaldan varað lengi í Evrópu. Ég óttast að frelsi fjármagnsins til að flytjast fyrirstöðulaust á milli landsvæða muni valda togstreitu. Yfirráð auðhringa og risafyrirtækja yfir atvinnulífi, stórum landsvæðum, jafnvel heilum ríkjum og flutningur fólks inn í önnur lönd án fyrirstöðu muni valda því að þessi draumur breytist í martröð. Og höllin í Brussel mun hrynja eins og spilaborg.
    Ég tel að stærsta hlutverk Alþingis Íslendinga sé að vernda sjálfstæðið. En það er líka stærsta hlutverk forseta Íslands. Forseti Íslands er kosinn í þjóðaratkvæðagreiðslu og sækir umboð sitt beint til þjóðarinnar. Í 26. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta: ,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar, eigi síðar en tveimur vikum eftir að það var samþykkt og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem auðið er undir þjóðaratkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.``
    Halda menn virkilega að það sé ekki nein meining með þessu lagaákvæði? Þarna er forseta ekki bara gefinn kostur á að taka þessa ákvörðun. Það hlýtur að vera ætlast til að forsetinn geri það og taki afstöðu til mála sem eru samþykkt á Alþingi. Hann hlýtur að skoða þetta mál sérstaklega og öll þau mál sem tengjast sjálfstæði þjóðarinnar sérstaklega. Ég held að í raun og veru hljóti það að vera mikið umhugsunarefni fyrir þingið hvernig forseti lýðveldisins mun taka á þessu máli.
    Mig langar að spyrja hæstv. utanrrh., sem alla lykla hefur í sínum höndum í þessu máli, hvort það hafi verið rætt við forseta Íslands hvaða álit hann hafi á þessu máli. Hvort hann muni staðfesta lög um Evrópska efnahagssvæðið sem stendur til að setja hér á Alþingi. Því ég held að það sé mjög mikilvægt að menn setji ekki lög á Alþingi þannig að forsetinn þurfi að grípa til 26. greinarinnar.
    Ég vonast til að fá svar við þessu. Mér finnst það mjög mikilvægt. Ég tel reyndar að forseti geti mjög eðlilega tekið afstöðu til málsins sé hann í þeirri vissu að mikill meiri hluti þjóðarinnar sem kaus hann beint sé á þeirri skoðun að hann eigi að fá að segja álit sitt á máli sem varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Þá hlýtur forsetinn að þurfa að hugsa sig vel um.