Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 17:27:29 (1950)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég fullyrti ekki að ræða hv. þm. væri unnin í Valhöll en mér kemur á óvart hversu hv. þm. lætur sér bylt við verða þegar þetta er nefnt. Ég hef ekki talið að það væri neinum til lasts þótt hann leitaði ráðlegginga. Hafi hv. þm. leitað ráðlegginga í Valhöll lít ég ekki á það honum til hnjóðs.
    Varðandi samninga er það meginregla að það er forseti Íslands sem gerir samninga við önnur ríki. Það er sagt í 21. gr. stjórnarskrárinnar: ,,Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.``
    Varðandi ríkisborgararéttinn þá liggur ljóst fyrir að það er grundvallaratriði í fjórfrelsinu að allir

þegnarnir skuli vera jafnir. Þeir skulu vera jafnir og þar með höfum við vissulega fengið frelsi úti í Evrópu en hinir hafa einnig fengið frelsi hér á landi.