Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 17:32:15 (1954)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki lagt í vana minn að gera athugasemdir við fundarstjórn hæstv. forseta en ræða eins og hv. 2. þm. Vestf. flutti áðan gefur sannarlega tilefni til þess að spyrja: Hvenær eru ummæli um þingmann eða ráðherra vítaverð?
    Eins og hæstv. forseti rifjaði hér upp áðan og reyndar hv. 2. þm. Vestf. þá segir í 89. gr. þingskapalaga að beri þingmaður ráðherra eða þingmanni brigslyrðum eða víki verulega frá umtalsefninu eða með öllu skuli hann víttur, þá skuli forseti víta hann og kalla til hans: ,,Þetta er vítavert``.
    Ég tel að þau ummæli sem hér voru áðan viðhöfð gefi sannarlega tilefni til þess að forseti hugleiði þetta mál og svari því eins og hún hefur nú gert að þetta hafi verið vítaverð ummæli. Ég þakka það.