Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu

48. fundur
Fimmtudaginn 05. nóvember 1992, kl. 17:33:22 (1955)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er mjög alvarlegt mál, þótt ekki sé meira sagt, ef hæstv. forseti vill standa á þeirri fullyrðingu sinni að hér geti þingmenn leyft sér að segja ýmsa hluti án þess að forseti fari að þingsköpum og berji strax í bjölluna og láti vita. Það er mjög alvarlegt mál. Það gengur nefnilega ekki að hæstv. forseti taki við pöntunum frá ráðherrum um það hvenær þeir telji að eitthvað sé vítavert sem hér er sagt. Það má vel vera að þung orð séu höfð um ráðherrana, það má vel vera. Það má vel vera að ráðherrar gefi tilefni til þess að svo sé. En það er gjörsamlega vonlaust að búa við það að forseti taki við því sem pöntun frá ráðherrunum hvenær hann vill gera athugasemdir við mál þingmanna eftir að ræða hefur verið flutt. Það er nefnilega skýlaus krafa þingskapanna að forsetinn dæmi það á þeirri stundu sem það gerist. Það er skýlaus krafa þingskapanna.