Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:21:26 (1972)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Þessar umræður hafa á marga lund verið fróðlegar og gefa tilefni til íhugunar í mörgum efnum. Auðvitað er það umhugsunarefni að þrátt fyrir það að við höfum búið hér við stöðuga atvinnu og ekkert atvinnuleysi í áratugi skuli Atvinnuleysistryggingasjóður vera jafnveikur og hann er. Maður hefði haldið að áratuga stöðugleiki án atvinnuleysis hefði átt að leiða til þess að sjóðinn hefði mátt byggja upp svo hann gæti fleytt okkur yfir vanda þó að hann stæði kannski í eitt, tvö eða þrjú ár. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni.

    Þær tölur eru líka umhugsunarefni, vegna þeirrar miklu umræðu um atvinnuleysi sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu, sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi um atvinnuleysi annars staðar í veröldinni. Það breytir að vísu ekki stöðunni fyrir okkur en er þó fróðlegt vegna umræðunnar. Eins og flm. benti á er atvinnuleysi í Svíþjóð og Noregi helmingi meira en hér á landi, fjórfalt meira í Danmörku og fimmfalt meira í Finnlandi. Þetta eru auðvitað hrikalegar tölur en segja þó þá sögu að enn er okkar atvinnuleysi sem betur fer með því minnsta sem þekkist hjá þjóðum Vesturlanda. Það eru til dæmi um að minna atvinnuleysi sé í löndum en hér er en enn sem komið er er atvinnuleysi á Íslandi með því minnsta sem þekkist.
    Hv. þm. nefndi það jafnframt að menn þyrftu að gera meira í endurmenntunartilboðum og starfsmenntunartilboðum. Ég vek athygli á því og er ekki að gera lítið úr því sem málshefjandi sagði að einmitt í þessum löndum, til að mynda í Danmörku og Svíþjóð, eru slík námskeið og tilboð mjög fyrirferðarmikil, svo fyrirferðarmikil að menn segja sem svo að atvinnuleysistölurnar sem þar eru nefndar ættu í raun að vera miklu hærri. Allt er þetta auðvitað athyglisvert.
    Það er ekki eins athyglisvert sem þingmaðurinn sagði að það væri meira og minna vondri ríkisstjórn að kenna. Ég geri ekki ráð fyrir því að við verðum sáttir um það frekar en hitt sem ég segi að ástæðan sé miklu fremur sú að hér hafi ríkt sex ára stöðnun þegar við verðum fyrir þeim ytri áföllum sem við höfum orðið fyrir varðandi fisk, álver o.fl. Það er vegna þess að við höfum búið við þá stöðnun, fækkandi atvinnutilboð en fleira fólki sem þetta áfall verður okkur jafnerfitt og raun ber vitni.
    Þrátt fyrir það að atvinnuleysi upp á 2,7--3% sé ekki hátt á vesturevrópskan mælikvarða er það í rauninni ekki það sem við höfum óttast mest og ég hygg að það eigi við um málshefjandann. Við höfum óttast að þetta gæti versnað og vaxið og það er hárrétt sem hér hefur komið fram að það er margt sem bendir til þess að það geti vaxið og versnað. Það er einmitt þess vegna sem menn hafa verið í umræðum, t.d. aðilar vinnumarkaðarins með atbeina ríkisvaldsins og menn binda vonir við það að þær viðræður leiði til niðurstöðu sem geti komið í veg fyrir að þessar tölur þurfi að hækka. Sem betur fer, og það skal þakka, þá hefur það komið fram af hálfu forustumanna stjórnarandstöðunnar að þeir vilja leggja sitt af mörkum til þess að slíkt allsherjarsamkomulag eða sátt megi nást. Ég tel að eftir fund sem var haldinn í morgun með fulltrúum Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og formönnum stjórnarflokkanna sé ljóst að það styttist mjög í það að niðurstaða náist. Í framhaldi af því tel ég eðlilegt að innan ekki margra daga eigi sér stað á nýjan leik viðræður milli flokka. Alþb. hafði frumkvæði að því, eins og menn vita, að slíkar viðræður hófust milli flokka. Það er þakkarvert og ég tel að eftir fáeina daga sé rétti tíminn til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Reyndar létu forustumenn flokka sem ræddu við mig og formann Alþfl. það í ljósi að þeir væru tilbúnir til þess að taka þráðinn upp þegar sú stund kæmi. Ég tel að sú stund sé einmitt að koma núna á næstu dögum. Ég vildi gjarnan að þetta kæmi fram.
    Aðeins vegna þess sem hv. 9. þm. Reykn. sagði, þá er auðvitað ljóst að það er enginn í þessari umræðu eða þeim viðræðum sem yfir standa að velta fyrir sér að leggja byrðar af því sem kynni að verða niðurstaðan í þessu máli á þá aðila sem eru með 50 þús. kr. laun. Það kemur engum slíkt til hugar.