Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:26:47 (1973)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefði verið ánægjulegt ef hæstv. forsrh. hefði getað slegið einhverja nýja tóna hér í umræðunni en því var ekki eð heilsa. Fyrsti punktur hans var athyglisverður. Hann var sá að gagnrýna menn fyrir að hafa ekki safnað í digra sjóði atvinnuleysistryggingabóta gegnum tíðina til þess að núv. ríkisstjórn gæti einfaldlega ausið upp úr þeim. Það er dálítið merkileg niðurstaða hjá hæstv. forsrh. að það sé eitt aðalvandamálið í sambandi við atvinnuleysið í dag í ljósi þeirra ummæla sem hann hefur haft um sjóði í gegnum tíðina. Þetta er reyndar í fullkomnu samræmi við það að helstu efnahagsúrræði hæstv. ríkisstjórnar fram að þessu, t.d. í málefnum sjávarútvegsins, hafa verið að tæma sjóði frá tíð fyrri ríkisstjórnar samanber útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins sem hafa haldið sjávarútveginum á floti í ár.
    Annað meginefni hæstv. forsrh. í ræðustólnum var að sýna fram á það með tölum að ástandið væri miklu verra hjá öðrum, miklu verra hjá Finnum og fleiri slíkum. Er mönnum þá ekki ætlað að tengja eins og sagt er, að þetta hljóti þá að vera í lagi hjá okkur?
    Í þriðja lagi var svo auðvitað forsrh. bundinn við fortíðina, þ.e. sökin liggur í fortíðinni. Það er ekki núv. ríkisstjórn að kenna þótt atvinnuleysi fari vaxandi mánuð af mánuði án þess þess að nokkuð sé reynt til að sporna gegn því. Nei. Þetta er fortíðarvandi.
    Þetta var megininntak ræðu hæstv. forsrh. Hann kom svo að því í lokin að e.t.v. yrðu aðilar vinnumarkaðarins svo góðir við hæstv. ríkisstjórn að færa henni efnahagstillögur og kjarasamninga. Þá yrði kannski hægt að gera eitthvað. Ég skora á hæstv. forsrh. að gera betur. Ég skora í fyrsta lagi á hann að koma hér upp og lýsa stuðningi við þessa tillögu því ég held að það sé mikilvægt að það liggi fyrir hvaða viðhorf eru í garð hennar. Í öðru lagi ætti hæstv. forsrh., ef hann vill láta taka mark á sér í þessari umræðu, að koma og segja eitthvað um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.