Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

49. fundur
Mánudaginn 09. nóvember 1992, kl. 14:32:57 (1976)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að við flm. höfum litið á mál hér út frá atvinnuleysi og þeirri breytingu sem orðið hefur á því á undanförnu ári sérstaklega. Afraksturinn enn sem komið er liggur fyrir þinginu í formi tveggja þingmála. Hið síðara, sem rætt er um, er þáltill. um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis. Fyrra málið sem við lögðum fram var frv. til laga um greiðslufrest á fasteignalánum vegna fjárhagserfiðleika. Málin eru beinar tillögur um viðbrögð vegna vaxandi atvinnuleysis og þeim hörmungum sem af því leiðir.
    Fáeinar tölur ættu að varpa skýru ljósi á hversu mjög atvinnuleysi hefur vaxið á tiltölulega skömmum tíma. Það kemur fram að fyrir fáeinum dögum voru liðlega 1.700 manns skráðir atvinnulausir í Reykjavík, 190 manns á Akureyri, 260--270 í Kópavogi og um 214 í Keflavík svo ég nefni nokkra staði. Þessu til viðbótar er fólk atvinnulaust sem ekki hefur látið skrá sig af ýmsum ástæðum en einkum þeim að það á ekki rétt á bótum. Menn hafa ekki upplýsingar um hvað það er stór hópur en lauslegar athuganir, sem ég veit um að hafa verið gerðar, benda til þess að þessi hópur sé mun stærri en menn höfðu ætlað, eða a.m.k. liðlega 1.000 manns.
    Hvort sem sú tala er nákvæmlega rétt eða ekki er ljóst að atvinnuleysi er verulegt og hefur ekki verið svo mikið í annan tíma og jafnvel ekki svo mikið áður. Í fjárlagafrv. kemur t.d. fram að atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu hefur tífaldast á 3--4 árum og á landsbyggðinni hefur atvinnuleysi þrefaldast á sama tíma. Sem dæmi um hraðar breytingar á síðustu 12 mánuðum má nefna að í Reykjavík hefur atvinnulausum körlum fjölgað um 285% og atvinnulausum konum hefur samkvæmt skrám fjölgað um 335% á síðustu 12 mánuðum. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er ljóst að atvinnuleysi tekur stórt stökk í tíð núv. ríkisstjórnar og það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort beint samband sé á milli þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur framfylgt og þeirrar aukningar sem orðið hefur á atvinnuleysi.
    Samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrv. virðist hér að einhverju leyti vera um að ræða afleiðingu af stefnu ríkisstjórnarinnar. Í fjárlagafrv. sjálfu er viðurkennt að spáð er auknu atvinnuleysi á næsta ári. Því er spáð að allt að 4.000 manns verði atvinnulausir á næsta ári að meðaltali og atvinnuleysi geti á fyrri hluta ársins farið allt upp í 5.000 manns. Það er spá fjmrh. um stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

    Það er dálítið merkilegt að sjá þessa spá því í henni felst að ríkisstjórnin er að segja að þrátt fyrir að Íslendingar gangi inn í Evrópskt efnahagssvæði, eins og áformað er, og njóti strax gífurlegs bata og hlunninda á fyrsta ári, eins og sífellt hefur verið haldið fram, er ávinningurinn af EES aukið atvinnuleysi fyrir launafólk í landinu. Það er ávinningur af EES fyrir íslenskt launafólk. Ég held að það sé ekki hægt að orða það skýrar, virðulegi forseti, en fram kemur í fjárlagafrv. sjálfu og forsendum þess hið beina samband á milli stjórnarstefnunnar og atvinnuleysis.
    Því má bæta við að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum getur leitt til þess að atvinnuleysi muni aukast enn hraðari skrefum frá þessum spám ef fram fer sem horfir þar sem menn virðast hafa það að meginmarkmiði að grisja skóginn, fækka fyrirtækjum og láta þau fara á hausinn því það sé ekki annað réttlæti til í veröldinni en að menn fari á hausinn. Látum það svo sem og kyrrt liggja. En hvergi er talað um það af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað eigi að gera í þessum byggðarlögum þegar fyrirtækin fara á hausinn. Hvað ætla menn þá að gera til að viðhalda atvinnu á þessum stöðum? Svarið er ekkert. Ríkisstjórnin hefur ekki komið fram með neinar hugmyndir um það sem hún ætlar að gera í sjávarútvegsplássum um land allt þegar það hefur gerst, sem því miður virðist ætla að verða að staðreynd, að fjöldamörg atvinnufyrirtæki í sjávarútvegi fari á hausinn á næstu mánuðum. Ekki mun það bæta atvinnuástandið.
    Ég vil svo að lokum benda á eina athyglisverða staðreynd í ljósi þeirrar áherslu sem er í stefnu ríkisstjórnarinnar á hagkvæmni stærðarinnar og nauðsyn þess að hagræða, sameina fyrirtæki og sveitarfélög, og ég veit ekki hvað fleira, að atvinnuleysið í dag er fyrst og fremst í stóru sveitarfélögunum. Það er miklu minna í litlu sveitarfélögunum og í sumum hverjum nánast ekki neitt. Það virðist því vera þrátt fyrir allt að þessi sjávarútvegspláss um landið, sem þykja ekki fínar rekstrareiningar í dag, séu þess bær að veita íbúum sínum atvinnu og jafnvel færari um það en hin stóru sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.